Helgarsprokið 11. september 2011

254. tbl. 15. árg.

F lestir vestrænir fjölmiðlar minnast þess í dag að áratugur er liðinn frá því nokkrir róttæklingar efndu til afar mannskæðra hryðjuverka í Bandaríkjunum. Ellefti september 2001 varð fljótt í munni margra að deginum „þegar heimurinn breyttist“. Sú skoðun er hins vegar hæpin, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður haldið fram. Heimurinn breyttist ekki þennan dag, en hins vegar urðu hryðjuverkin til þess að ýmsir áttuðu sig á því stundarkorn hvernig heimurinn er, hefur verið og verður. Margir bjartsýnir menn og barnalegir misstu heimsmynd sína andartak. Sovétríkin voru hrunin, Gore hafði fundið upp internetið, karlar voru farnir í fæðingarorlof og sumir héldu að heimurinn væri orðinn að sætu þorpi þar sem ekki þyrfti að óttast annað en óbeinar reykingar og hlýnun jarðar, en aðrar öryggisráðstafanir væru hlægilegar.

En fyrir áratug áttuðu margir sig á því um stund, að það eru og verða alltaf til öfl sem vilja koma Vesturlöndum og því sem eftir er af vestrænni menningu á kné. Og þessi öfl munu beita þeim ráðum sem þau geta. Fólkið sem fórst í turnunum eða með flugvélunum var hvorki betra né verra en annað fólk. Það var hvítt og svart, kristið, islamstrúar, trúlaust. Það var bara statt í þeirri borg sem þykir einna táknrænust fyrir vestræna lifnaðarhætti. Það varð bara fyrir þegar hatur róttæklingsins fékk útrás. Þessir atburðir opnuðu augu margra fyrir því að það verður alltaf sótt að vestrænni menningu, svo lengi sem hún þráast við að hverfa með öllu og eftirláta róttæklingum annarrar menningar heiminn. En sum augu voru auðvitað kyrfilega lokuð áfram, enda verða ætíð til þjóðfélagsöfl sem hafa rangt fyrir sér, hvenær sem grundvallaratriði koma til tals.

Það var auðvitað óhjákvæmilegt að bregðast við hryðjuverkaárásunum. Þau voru skipulögð og framin af samtökum, eða einhvers konar neti hryðjuverkamanna, sem lýstu því skýrt yfir að þau væru hvergi nærri hætt. Í vissum heimshluta var víða dansað á götum og bandaríski fáninn brenndur, til að fagna ódæðisverkunum. Öllum sæmilegum mönnum varð ljóst, að mikil en nauðsynleg barátta var framundan til að uppræta ófögnuðinn, eða takmarka illgjörðagetu hans sem mest. Enginn þarf að efast um að þeir menn, sem beittu farþegaflugvélum, fullum af saklausu fólki, sem vopnum í stríði sínu, myndu ekki hika við að beita hefðbundnum vopnum af öflugasta tagi, ef þeir hefðu tök á. Vesturlönd áttu engan kost annan en að grípa til mjög harkalegra aðgerða gegn hryðjuverkaógninni og það var gert, þrátt fyrir að menn vissu hversu óvinsælt slíkt yrði heima fyrir.

Sumir sögðu strax og hafa sagt æ síðan að þar hafi verið gengið allt of langt. Öfgamenn hafi náð að nýta hryðjuverkin sem átyllu til að hrinda í framkvæmd ýmsum baráttumálum sínum, sem þeir hefðu aldrei fengið stuðning við ef fólki væri sjálfrátt. Slík gagnrýni getur verið á rökum reist. Það er algengt að menn reyni að nýta sér ringulreið sem fylgir stórum og óvæntum atburðum til að knýja fram einhver hugðarefni sín, áður en fólk nær áttum. Íslendingar þurfa ekki að horfa út fyrir landsteinana til að sjá dæmi um slíkt, en hér á landi hefur gjaldþrot þriggja banka óspart verið notað í þessu skyni. Þar misstu menn svo bæði kjark og áttir að allskyns rugl hefur vaðið uppi og verið óspart hampað. Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn, álitsgjafar og fjölmiðlamenn reyna að nota tækifærið sem mest þeir mega og láta eins og þeir einir megi hafa orðið. Hægra megin við miðju hafa menn enn ekki náð vopnum sínum. Stjórnarandstaðan á þingi hefur verið ruglingsleg á köflum, að ekki sé minnst á algert máttleysi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár.

En þótt nauðsynlegt hafi verið að berjast af krafti gegn hryðjuverkaógninni og taka einnig af tvímæli um að þeim ríkjum, sem hýstu hryðjuverkamenn eða stæðu sjálf fyrir hryðjuverkum, yrði ekki hlíft, þá er ekki þar með sagt að öll meðul séu leyfileg eða að ekki sé hægt að ganga of langt í öryggisátt. Menn vilja ganga öryggir um götur, án þess að allt sé morandi í eftirlitsmönnum. Menn vilja að hryðjuverkamenn séu miskunnarlaust stöðvaðir áður en þeir ná að koma vilja sínum fram, en ekki að saklausir menn séu handteknir eða áreittir á annan hátt. Þessar kröfur, sem allar eru eðlilegar, setja yfirvöld í erfiða stöðu. Fólk vill njóta tækninýjunga, upplýsingastreymis og takmarkaðs landamæraeftirlits. En það eru svo einmitt þessi atriði sem gera hryðjuverkamönnum lífið auðveldara. Fólk vill að lögregla nái miklum árangri við að stöðva tilræðismenn. Engar viðvaranir má hunsa. En svo vilja fjölmiðlamenn geta sótt að lögreglu og krafið hana um nákvæmar skýringar á öllum hennar aðgerðum. Eftir á þykja óþarfar aðgerðir ákaflega hlægilegar. Við allan þennan línudans bætist það hversu erfitt það er að glíma við þá menn sem einskis svífast, menn sem eru svo heiftúðugir að þeir telja það sérstakan sigur ef þeir láta sjálfir lífið þegar þeir vinna voðaverk sín. Þegar við slíka menn er að eiga þá getur fólk aldrei verið öruggt. Sá sem er reiðubúinn að fórna sjálfum sér á þess alltaf kost að ganga lengra en sá sem ekki er reiðubúinn til þess. Engu að síður verður að reyna að draga sem mest úr hættunni án þess að gefa eftir rétt hins almenna borgara til að geta um frjálst höfuð strokið

Sumir segja að ef öryggisreglur verði hertar þá hafi „hryðjuverkamennirnir sigrað“. Slíkir menn vilja að Vesturlönd breyti í engu reglum sínum og viðhorfum og vilja alls ekki að Vesturlönd geri öðrum ríkjum að auka mannréttindi á sínum bæ áður en þau heimta réttindi á Vesturlöndum. „Við gerum einfaldlega meiri kröfur til okkar“, segja þeir og eru ánægðir með sig. Staðreyndin er samt sú, að menn verða að taka mið af raunveruleikanum, ef þeir vilja ekki að raunveruleikinn ryðji þeim hreinlega úr vegi. Menn reyna hins vegar að finna þá slóð milli öryggis og frjálsræðis sem hægt sé að fylgja þannig að hvorutveggja sé gert nægilega hátt undir höfði. Menn leyfa handfarangur í flugvélum og að farþegar gangi frjálsir um vélina, en það er leitað að vopnum áður en þeir ganga um borð, svo einfalt dæmi sé tekið. Og einhvern tíma kemur að því að Vesturlandabúar taka að velta fyrir sér, hvort þeir eigi kannski að gera mannréttindakröfur á hendur öðrum menningarheimum, áður en þeir ganga lengra sjálfir í að laga sig að innflytjendum þaðan.

Heimurinn breyttist ekki ellefta september tvöþúsund og eitt. En heimsmynd margra breyttist. Sumir sáu heiminn eins og hann raunverulega er. Aðrir hertust jafnvel í ranghugmyndum sínum. Eins og jafnan gerist þegar stórir atburðir verða. En þá verða menn að halda áttum, missa ekki sjónar á meginatriðum og gæta þess að ofstækismenn fái ekki frítt spil.