Þriðjudagur 30. ágúst 2011

242. tbl. 15. árg.

Þ að hefur margt verið sagt um ástæður þess að bóla blés út á húsnæðismarkaði hér frá 2004 til 2007 og sprakk svo í kjölfarið. Sniðugar auglýsingar Framsóknarflokksins fyrir þingkosningar 2003 þar sem öllum var lofað húsæðislánum til að flytja frá mömmu og pabba voru voru forspil að þessu. Eftir kosningar streittist Sjálfstæðisflokkurinn gegn 90% boðum Framsóknar en þá lofaði Samfylkingin Framsókn þessu öllu ásamt því að gera Halldór Ásgrímsson að forsætisráðherra í selskinsjakka og hafa Guðmund Steingrímsson í dagvist næstu árin.

Nú hafa ný rök komið fram í málinu. Þorleifur Gunnlaugsson fyrrverandi borgarfulltrúi vinstri grænna upplýsti í gær að bólan hafi kannski ekki verið bóla að öllu leyti heldur leiðrétting á fölsunum hins opinbera á fasteignaverði.

Fasteignabólan fór í gang þegar verkamannabústaðirnir voru lagðir niður. Á árabilinu frá 1988 til 1999 komu að jafnaði 350 íbúðir á markaðinn frá verkamannabústöðunum. Þær voru settar á markað á kostnaðarverði og leiddu til stöðugleika á markaðnum

Svo kannski var verðið fyrir bólu alltof lágt. Mörg hundruð íbúðir flæddu ár hvert inn á markaðinn sem verkamannabústaðir og héldu verði niðri fram til aldamóta.

Það er vafalaust rétt hjá Þorleifi að þarna er enn eitt dæmið um hvernig opinber afskipti brengla allt og valda ójafnvægi til lengri tíma litið.