Á miðvikudagskvöldið sátu tveir þingmenn, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Pétur H. Blöndal, í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og ræddu nauðsyn þess að sameina vaxtabætur og húsaleigubætur og kalla þær framvegis húsnæðisbætur. Bæði viðurkenndu þau að litlar upplýsingar væri af hafa um húsnæðismarkaðinn og því erfitt að átta sig á stöðunni. Pétur benti á að húsaleigubætur tækju ekkert tillit til fjölskyldustærðar. Fjöldi barna á heimili hefði því engin áhrif á húsaleigubætur og raunar ekki vaxtabætur heldur.
En eru ekki til sérstakar bætur sem kenndar eru við börn? Væri þá ekki ráð að sameina þær einnig nýju húsnæðisbótunum? Barnahúsnæðisbætur? Og þá aðrar bætur einnig: elli- og örorkulífeyri frá ríkinu, atvinnuleysisbætur, fæðingarorlof, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, frístundakort, listamannalaun, bætur til bóndans til að halda Skjöldu og Bola, bætur til háskólans fyrir að halda Þórólf og Þorvald?
Tæknilega virðist ekkert koma í veg fyrir að hvers kyns bætur verði sameinaðar í eina bótagreiðslu í lok árs sem tæki tillit til tekna, húsnæðisskulda, barna, barna í frístundum, nýfæddra sérstaklega, elli, örorku, atvinnuleysis, listhneigðar, bústarfa og hagfræðikennslu í HÍ.
En líklega væri það of einföld og ódýr lausn fyrir raunveruleikann.