M eðal þeirra hugtaka sem oft heyrðist talað um, fyrst eftir gjaldþrot bankanna, var „sjálftaka“. Ófáir lýstu megnri skömm á þeim sem hrifsuðu einfaldlega til sín, en skeyttu engu um lög og rétt.
Sú andúð er skiljanleg. Ef menn telja sig eiga rétt, þá eiga menn að sækja hann eftir löglegum leiðum, ekki handafli. Hver er ekki á móti „sjálftökuliðinu“?
Í næstu viku mun líklega hefjast verkfall hóps starfsmanna á leikskólum. Hvað myndu menn segja ef aðrir starfsmenn, sem ekki fara í verkfall, myndu reyna að halda starfseminni óraskaðri, og vaskir foreldrar kæmu á staðinn og stæðu þar vörð um starfsemina, ábúðarmiklir á svip, og segðust mættir til að tryggja rétt sinn til barnagæslu? Verkfallsmönnum sem kæmu til að gera athugasemdir, væri fleygt í burtu með ofstæki.
Ætli menn myndu ekki segja að það væri yfirgangur og ruddaskapur að ætla að knýja fram rétt með því að fjölmenna bara á staðinn og beita valdi ef annað gengur ekki?
En hvað á þá að segja um samskonar ruddaskap annarra, sem mæta í verkföllum og gangast stoltir við því að þeir muni með valdi hindra aðra í gera nokkuð sem þeir telja brjóta á rétti verkfallsmanna? Svonefnd „verkfallsvarsla“ er ekkert annað en yfirgangur, sjálftaka á rétti sem menn telja sig eiga.
Ef verkfallsmenn eiga rétt á því að aðrir geri ekki eitthvað á meðan á verkfalli stendur, svo sem að „ganga í störf verkfallsmanna“, þá geta þeir sótt þann rétt eftir löglegum leiðum. Það er ekkert annað en sjálftaka á réttindum að reyna að knýja þann rétt fram með handafli.
Þegar kemur að réttindum þá eru „verkfallsverðir“ einfaldlega sjálftökulið, sem skákar í því skjóli að ofstækismönnum hefur tekist að koma því þannig fyrir að lögreglan í landinu er aftengd, um leið og hefst verkfall.
Um leið og verkfall er hafið, þá eru einstaklingarnir sviptir vernd lögreglunnar, en hnefaréttur þeirra freku verður allsráðandi.
R ikisútvarpið, mesti áhugamaður veraldar um launabaráttu opinberra starfsmanna, bregst aldrei. Það heldur áfram að tala fyrirvaralaust um að verkfallsboðendur krefjist „leiðréttingar“ launa sinna, rétt eins og þeir fái nú borguð röng laun. Launin eru, þrátt fyrir það sem starfsmenn Ríkisútvarpsins reyna að innræta fólki, hárrétt. Þau eru það sem samið var um síðast. Nú er einfaldlega krafist hærri launa, og auðvitað ekkert að því að menn geri það, en það er ekki krafist réttari launa.