H ið opinbera er sífellt að vernda vitleysingana sem ráfa um opinberu göturnar og kalla sig borgara. Nú á dögunum tókst á elleftu stundu að koma í veg fyrir að endurtekinn yrði leikur að eldi, svokallað „Mömmur og möffins“, en þar ætluðu áhættufíklar að leika sama leik og í fyrra þegar þeir héldu „muffins-basar“ til styrktar fæðingardeild sjúkrahúss. Heilbrigðiseftirlitið hefur nú bannað basarinn nema húsmæðurnar sem standa að honum fari í viðurkennd atvinnueldhús til að baka.
Þetta er aðeins örlítið dæmi um eftirlit hins opinbera, sem færir sig samfellt upp á skaftið. Ókosnir embættsmenn með barnfóstrutilhneigingar og stjórnlyndir kosnir smástjórnmálamenn munu halda áfram að þrengja að borgurunum, skerða frelsi þeirra smátt og smátt en jafnt og þétt, svo lengi sem ekki verður tekið í taumana.
Auðvitað getur einhvern tíma einhver veikst af því að borða súkkulaðiköku sem elduð var annars staðar en í atvinnueldhúsi. Það getur gerst í fermingarveislu, afmælisboði eða í hléi á pókerkvöldi. Og það getur líka gerst á möffins-basar. En það á að leyfa fólki að lifa lífi sínu sjálft án samfelldra leiðbeininga, boða og banna. Rétt eins og menn eiga að mega hjóla hjálmlausir, reykja í þeim húsum þar sem húsráðandi leyfir reykingar, borða djúpsteiktan mat, taka í nefið og lesa athugasemdir við blogg Skafta Harðarsonar. Flest er þetta eflaust óskynsamlegt og jafnvel hættulegt heilsunni. En þeir sem vilja gera þetta, eiga að mega það.
Nú um helgina munu þúsundir manna liggja í tjaldi, sumir niðurrigndir að utan, sumir að innan. Er það nú skynsamlegt? Að vísu leggja kontóristarnir ekki enn það í að banna fjöldaútihátíðir, en þeir sem banna mömmu-möffins geta nú varla verið rólegir yfir þessu. Og einhvern tíma kemur röðin að þessum vitleysingum sem liggja drukknir í tjaldi úti í sveit. En þangað til má að minnsta kosti gera kröfur um mikið eftirlit og hamra á því að annar hver gestur sé líklegur nauðgari.