Fimmtudagur 28. júlí 2011

209. tbl. 15. árg.

U ndanfarnar vikur hefur Tómas Ingi Olrich fyrrverandi menntamálaráðherra ritað afar athyglisverðan greinaflokk um utanríkismál og fleira í Morgunblaðið. Hefur hann þar fjallað töluvert um Evrópumál en þar er hann mörgum mönnum fróðari, en Tómas Ingi var lengi formaður utanríkismálanefndar Alþingis og síðar sendiherra Íslands í Frakklandi.

Í grein sem Tómas Ingi skrifar í gær segir hann meðal annars:

„Þann 3. júlí sl. var rætt við Þorstein Pálsson í þættinum „Landið sem rís“. Þorsteinn kvartaði undan almennu aðhaldsleysi hérlendis á árunum fyrir lánsfjárkreppuna. Þáttarstjórnandinn, Jón Ormur Halldórsson, bætti þá við athugasemd: „Gjaldmiðillinn veitti okkur ekki aðhald…“. Þessi sakleysislega athugasemd er grein á meiði þess málflutnings að í krónunni eða evrunni sé fólgið einhvers konar innbyggt aðhald eða aðhaldsleysi. Svo er ekki. Það eru þeir, sem stýra helstu hagstærðum þjóða og þjóðasambanda, sem stunda aðhald eða aðhaldsleysi. Það er atvinnulífð, sem sýnir fyrirhyggju eða glannaskap. Það er almenningur sem stundar hófsemi ef vel er á málum haldið.“

Þetta er ekki óskynsamleg ábending hjá Tómasi Inga. Margir glamrarar umræðunnar telja mikla lausn í því fólgna fyrir Íslendinga að taka upp evru, svo merkilegt sem það nú er á tímum þegar vart er vitað um nokkuð land sem raunverulega vill búa við hana. Með hæfilegri einföldun má segja að um þessar mundir skiptist evrulöndin í þau lönd þar sem eigin stjórnvöld banna þjóðinni að losa sig við evruna, og þau lönd þar sem erlend stjórnvöld banna þjóðinni að losa sig við evruna.

En jafnvel þótt allt gengi vel á evrusvæðinu þá væri upptaka evru engin töfralausn fyrir Íslendinga. Það sem skiptir máli er að farið sé skynsamlega með opinbert fé og efnahagslífið sé heilbrigt. Á síðustu árum hefur orðið mikil lausung í efnahagsstjórn á Íslandi, með stórauknum opinberum útgjöldum. Það er gegn því sem þarf að berjast. Ef tekst að jafna fjárlagahalla, skera verulega niður ríkisútgjöld og draga úr opinberum umsvifum þá mun efnahagslífið fá raunverulega vítamínsprautu. Hún fæst ekki með því að velja eina opinbera mynt í stað annarrar en halda áfram að eyða um efni fram. Ef menn halda að enginn steypi sér í óviðráðanlegar ógöngur með evru, þá ættu þeir að fara með þá kenningu sína í fyrirlestraferð um Evrópu. Þeir gætu byrjað á Írlandi, farið þaðan til Portúgal, svo yfir til Spánar áður en þeir færu til Grikklands. Þar á eftir mætti fara til Kýpur á leiðinni til Ítalíu.