Miðvikudagur 27. júlí 2011

208. tbl. 15. árg.

H venær ætli bótaþegaskrá ríkisins verði birt opinberlega? Jón Jónsson þáði í fyrra eina komma sex milljónir króna í atvinnuleysisbætur, sem kunningjum hans þykir mjög forvitnilegt því þeir vita ekki betur en hann vinni í raun sem aðstoðarmaður á bílaverkstæði mágs síns og hafi gert lengi.
Bótaþegaskráin verður öflugt tæki til að koma í veg fyrir svindl, auk þess sem fólk á auðvitað rétt á því að vita í hvað sameiginlegum sjóðum er ráðstafað. Eða hvað? Eru þau ekki einhvern veginn svona, rökin sem notuð eru fyrir því að opna aðgang að álagningarskrám ríkisins, sem geðfelldir útgefendur senda hersveit sína í samdægurs og byrja svo að reikna? Á birtingin ekki að vera svo gagnleg til að koma í veg fyrir skattsvik? Og er ekki oft sagt að menn eigi rétt á því að vita hverjir borgi skatta til ríkisins? En hvers vegna eru þá ekki birtar bótaþegaskrár? Af því að þær upplýsingar eru viðkvæmar?
Hvaða viðkvæmni er þetta, ekki þykja mönnum upplýsingar um aðrar tekjur vera viðkvæmar. Er einhver skömm að því að þiggja bætur, ef menn eiga rétt á þeim? Raunar leggur Vefþjóðviljinn ekki til að bótaþegaskrár verði birtar. En fyrir slíku væru þó rök sem síst eru veikari en þau sem höfð eru fyrir birtingu álagningarskrár. En ríkið á einfaldlega að fara mjög varlega í að birta upplýsingar um persónuleg málefni borgaranna, að ekki sé talað um þegar vitað er að sumir munu gera upplýsingarnar að féþúfu fyrir sjálfa sig – fyrir nú utan alla röngu útreikningana sem spekingunum virðist takast að gera á hverju ári. Þess vegna á að taka fyrir opinbera birtingu úr álagningarskrám – að ekki sé minnst á þann furðulega hátt skattstjóranna að taka saman og senda út lista yfir þá sem hæst greiða gjöldin. Hvaða markmiði á það að þjóna?

Það er merkilegt að þeir sem gefa út blöð og tímarit sem selja upplýsingar úr álagningarskrám, ganga sjaldan á undan með því að birta upplýsingar um eigin fjárhagsmál. Þar þyrftu þeir þó ekki að styðjast við misranga útreikninga úr álagningarskrám heldur gætu notað raunveruleg gögn eins og eigin launaseðla og reikningsyfirlit. Svo eru fjölmiðlamennirnir sjálfir yfirleitt þekktari en flestir þeirra sem þeir nefna í tekjublöðunum sínum, svo „almenningur“ ætti að hafa miklu meiri áhuga á þeim sjálfum. En einhverra hluta vegna telja þeir fæstir að „réttur almennings til upplýsinga“ nái til upplýsinga um þá sjálfa.

En ríkið lætur fleira en álagningarskrár sínar liggja á glámbekk. Þjóðskráin er annað. Eitt er nú að ríkið vilji vita hvar hver og einn á heima. En að þær upplýsingar séu svo hafðar til sýnis opinberlega er alvarlegt mál. Hvers vegna þarf fólk að búa við slíkt?