F rá því hefur verið greint að verðbólga fari nú vaxandi í landinu og miðað við stöðuna nú, fái fólk vegna hennar enga kaupmáttaraukningu út úr nýjustu kjarasamningum. Var sagt í fréttum í gærkvöldi að nú stefndi í að kjarasamningar yrðu leystir upp á næsta ári, þar sem ein forsenda þeirra sé mun lægri verðbólga en nú mælist. Að vísu vita flestir að forstjórar ASÍ og SA munu aldrei segja upp samningunum, hvort sem þeir verða stórskaðlegir fyrir atvinnulífið eða gagnslausir fyrir launafólk. Forstjórarnir hafa ekki hugann við annað en tilrauni Samfylkingarinnar til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og munu ekkert gera sem ruggar þeim báti.
En verðbólgan er víst komin á kreik. Ríkisstjórnin á sinn þátt í því. Hún kann þau ráð helst að auka álögur á borgarana og fyrirtækin. Þannig hefur hún aukið verulega álögur á eldsneyti og áfengi og hún hefur hækkað allskyns gjöld sem lögð eru á atvinnureksturinn í landinu, sem þá þarf aftur að hækka hjá sér útsöluverðið sem aftur hækkar verðbólguna.
Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Jón Mikael Jónasson hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Sagði hann að síðustu ár hefði gosdrykkjasala gengið ágætlega en í fyrra hefði salan hins vegar minnkað: „Sennilegasta skýringin er að sykurskatturinn bættist við vöruverðið og í tilviki tveggja lítra gosflösku bætti sá skattur 32 krónum við einingaverðið“, segir hann í blaðinu.
Ætli margir átti sig á því, að í hvert sinn sem þeir kaupa tveggja lítra flösku af pepsicola borga þeir, auk allra annarra opinberra gjalda, 32 krónur í sérstakan sykurskatt, sem Steingrímur J. Sigfússon tekur og ver til merkra mála?
Launamenn fá mjög litlar kjarabætur. Verðbólgan er farin af stað og hirðir kjarabæturnar. Ríkisstjórnin kyndir undir og slær gjaldborg um heimilin sem reyna að fleyta sér milli mánaða.
Sykurskattur, þökk fyrir.