Mánudagur 25. júlí 2011

206. tbl. 15. árg.

Þ að vantar sjaldan kröfugerðirnar á hendur skattgreiðendum.

Í síðustu viku var sagt frá því  , að rekstur Akureyrarakademíunnar, sem mun vera félag „sjálfstætt starfandi fræðimanna“ á Akureyri, sé „afar bágborinn“ og hafi á síðasta ári sloppið fyrir horn „fyrir tilstilli styrks frá menntamálaráðuneytinu“. Segir í fréttinni að félagið hafi fengið níu milljónir króna í styrk frá ríkinu á fjögurra ára tímabili, en styrkumsókn þess fyrir þetta ár hafi verið hafnað „án skýringa“. Ríkisstyrkurinn hafi fram að þessu verið meginhluti tekna félagsins.

Það er bara svona. Því er bara hafnað „án skýringa“ að halda áfram að styrkja þetta félag „sjálfstætt starfandi“ fræðimanna. Það er eins og ríkið bara viti ekki að nær allar tekjur þessa félags „sjálfstætt starfandi“ fræðimanna, eru ríkisstyrkir. Heldur ríkið bara að það megi hætta að styrkja þetta félag og það „án skýringa“?

Svona er þetta svo víða. Menn ná að koma hugðarefnum sínum inn á fjárlög og vilja vera þar í ævilangri áskrift. Krefja ríkið um skýringar ef ekki er haldið áfram að dæla peningum, sem teknir eru með skattfé af hart keyrðum landsmönnum og fyrirtækjum. Á hverjum degi eru fyrirtæki að skera niður í rekstrinum, minnka starfsemi og segja upp fólki. Veigamikil ástæða þess eru skattahækkanir vinstristjórnarinnar. Það er bráðnauðsynlegt að minnka opinber útgjöld og lækka skatta verulega. Til þess þarf að taka verulega margt af fjárlögum, meira að segja gríðarlega mikilvæg mál eins og félög „sjálfstætt starfandi“ fræðimanna, bæði í Reykjavík og norður á Akureyri.

Ef menn endilega vilja skýringar þá má segja þeim að skattgreiðendur hafi ekki efni á þessu lengur. Menn verði bara að verða sjálfstætt starfandi héðan í frá.