Helgarsprokið 24. júlí 2011

205. tbl. 15. árg.

R eykjavíkurborg viðurkennir að eiga ekki peninga fyrir slætti og annarri umhirðu á opnum svæðum og umferðareyjum. Morgunblaðið heimtar dag eftir dag að grasbalarnir séu samt slegnir. Má spyrja Morgunblaðið hvar eigi að taka fé til þess?

Staðreynd er að borgin hefur á undanförnum áratugum sífellt bætt við svonefndum grænum svæðum. Það er gert þótt engin þörf sé á fleiri slíkum svæðum. Fæst þeirra eru nýtt þannig að ástæða sé til að bæta nýjum við.

En þetta á við á flestum sviðum borgarrekstursins. Hvert sem litið er hefur borgin tekið að sér verkefni sem hún ræður ekki við. Nú er svo komið að borgin ræður jafnvel ekki við að gera áætlanir um rekstur sinn sem henni ber þó lögum samkvæmt. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vakti athygli á þessu með grein í Morgunblaðinu á mánudaginn. Þar segir hann:

Reykjavíkurborg hefur ekki enn skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála eins og henni bar að gera í febrúar síðastliðnum. Óviðunandi er að þannig sé staðið að málum hjá langstærsta sveitarfélagi landsins og hætta er á að borgin verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar. Í 63. grein sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að árlega skuli leggja fram og samþykkja þriggja ára áætlanir um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélaga. Skal áætlunin vera afgreidd af sveitarstjórn (borgarstjórn Reykjavíkur) innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar. Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd 15. desember og hefði borgarstjórn því átt að fjalla um og afgreiða umrædda þriggja ára áætlun um miðjan febrúar. Öll nágrannasveitarfélögin hafa fyrir löngu skilað inn sinni áætlun en ekkert bólar á henni hjá Reykjavíkurborg.

Borginni er sem kunnugt er stýrt af Besta flokknum og Samfylkingunni. Samfylkingin hefur frá stofnun sinni lagt mikla áherslu á faglega vinnubrögð, samráð og hvað þetta er allt kallað sem áður var talið almenn skynsemi og þurfti ekkert orðskrúð um. En þegar á reynir eru vinnubrögðin svona.

Vinnubrögðin í þessu máli eru táknræn fyrir þá upplausn og óvönduðu vinnubrögð, sem tíðkast nú í Ráðhúsi Reykjavíkur undir stjórn Jóns Gunnars Kristinssonar og Dags B. Eggertssonar. Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára áætlun tafist svo að ekki hafi náðst að samþykkja hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Í raun má deila um hvort rétt hafi verið að senda borgarstjórn í sumarleyfi með þessa áætlun ófrágengna. Ótrúverðugar skýringar Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að töfin stafi af yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Í þessu sambandi má benda á að það var ekki bara Reykjavík, sem tók við þessum málaflokki frá ríkinu, heldur öll önnur sveitarfélög landsins. Er ekki vitað til þess að önnur sveitarfélög hafi þurft á fresti að halda vegna þessarar tilfærslu enda skiluðu þau flest af sér þriggja ára áætlun á fyrstu mánuðum ársins. Ekki má heldur gleyma því að Reykjavíkurborg hefur áður tekið á móti verkefnum frá ríkinu án þess að það hafi komið niður á áætlanagerð sveitarfélagsins og lögbundnum skilum á gögnum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Og slugsið á ekki aðeins við um fjárhagsáætlanir heldur einnig minni mál eins og breytingar á götum. Það var upplýst í síðustu viku að ekki væri hægt að sekta bílstjóra fyrir að aka gegn einstefnu á Suðurgötu því borgin hefði ekki haft nægilegt samráð við lögregluna um málið þegar götunni var skyndilega breytt úr tvístefnu í einstefnu og fráleitur hjólastígur málaður á hana. Lögreglan hefur ekki samþykkt breytinguna fyrir sitt leyti og því er ekki hægt að sekta menn fyrir brot á einstefnu borgarstjórnarinnar.

Hvað er eftir af fagmennsku og samráði borgarstjórnarinnar þegar lögreglunni er ýtt til hliðar þegar kemur að umferð í borginni?