H afa margir lent í því, að sjá vöru í vöru í verslunarglugga, án þess að verð hennar sé tekið fram, fara svo inn í verslunina, spyrja um verðið, fá engin svör en neyðast til að kaupa vöruna við svo búið?
Á stofnunum ríkisins starfar fólk sem telur mikla hættu á þessu. Að sé ekki áberandi verðmerking við hvern einasta varning sem stillt sé upp í verslunum eigi fólk það á hættu að kaupa vöruna án þess að fá að vita hvað hún kostar. Til að forða þessum hörmungum sjá þessir starfsmenn ríkisins ekki annan kost en að sekta þær verslanir sem ekki setja upp þá verðmerkingu sem ríkisstarfsmönnunum líkar.
Í dag var tilkynnt að „Neytendastofa“ hefði sektað fimmtán verslanir í Reykjavík um 50 til 200 þúsund krónur fyrir að vera ekki með nægilega mikla verðmerkingu. Og til þess að illmennska verslunareigenda færi ekki á milli mála voru nöfn allra verslananna lesin upp í hádegisfréttum í útvarpi ríkisins.
Hvenær ætli mönnum detti í hug að leyfa fólki að gæta sín sjálft? Hvers vegna á maður, sem gengur inn í verslun, einhvern rétt á því að eigandi verslunarinnar setji upp alls kyns merkingar? Er ekki nægilegt að viðskiptavinur, sem ekki fær að vita hvað vara kostar, hætti einfaldlega við að kaupa hana? Hvað kemur þetta ríkinu við? Og hvert halda þessir menn á „Neytendastofu“ að verslunin sæki sektarféð?