Helgarsprokið 17. júlí 2011

198. tbl. 15. árg.

Borgarráð endurnýjaði í síðustu viku reglur um gjaldfrjáls bílastæði fyrir „visthæfa“ bíla. Samkvæmt reglunum teljast „visthæfir“ bílar annars vegar þeir sem eru litlir, léttir og þar með eyðslugrannir og hins vegar þeir sem nota innlenda orkugjafa.

Hér var vikið að svipðum reglum sem samþykktar voru fyrir fjórum árum:

Fjögurra eða fimm manna fjölskylda á því ekki möguleika á að vera á „visthæfum“ bíl nema einn eða tveir úr fjölskyldunni sitji jafnan heima. Hjón sem deila einum bíl sem eyðir 5,1 bensínlítra eru ekki talin visthæf en hjón sem nota tvo bíla sem eyða 5,0 lítrum hvor fá frítt í stæði fyrir báða „visthæfu“ bílana sína. Er það sérstakt markmið borgarstjórnar að fjölga bílum á götum borgarinnar?

Eina viðmið borgarinnar um hvort bíll er „visthæfur“ er hve mikinn koltvísýring (CO2) hann gefur frá sér. Koltvísýringur hefur þó ekkert með loftgæði í borginni að gera. Hann er raunar eina útblástursefni bílavéla sem skiptir fólk á götum borgarinnar engu máli! Ef það kæmi eingöngu koltvísýringur úr bílvélum hefðu bílvélar engin áhrif á loftgæði í borginni.

Þessar athugasemdir eru enn í fullu gildi. Hjón sem deila bíl af fullri stærð niðurgreiða bílastæði fyrir hjón sem fara um á tveimur litlum bílum. Bændahjón vestan af fjörðum sem koma í bæinn á venjulegum fólksbíl greiða fullt verð í stæði borgarinnar en ef þau skipta liði á tveimur smábílum fá þau gjaldfrjáls stæði.

Í þessu samhengi má nefna að borgaryfirvöld og aðrir eigendur Strætó bs. hafa um árabil auglýst strætisvagnana sem „grænan“ og „umhverfisvænan“ ferðamáta. Strætó er þó fjarri því að vera visthæfur samkvæmt þessari skilgreiningu borgarinnar á visthæfum bílum. Flestir vagnarnir gefa bæði frá sér alltof mikinn koltvísýring og allir eru þeir þyngri en svo að þeir geri borginni til visthæfis.

Almennt má segja um hina Dieselknúnu strætisvagna að þeir gefi frá sér meiri koltvísýring á farþegakílómetra en hefðbundin notkun á fólksbíl. Því til viðbótar má nefna að svifryksmengun og útblástur köfnunarefnisoxíða frá Dieselbílum er meiri en frá bensínbílum og hinir stóru og breiðu strætisvagnar þyrla upp ryki sem fólksbílar hafa ýtt út í vegarkant. Það er vart hægt að lenda í verri svifryksmengun í Reykjavík en þegar strætisvagn fer hjá.

En aftur að reglunum um visthæfa bíla sem mismuna bílum ekki aðeins að „visthæfi“ heldur einnig alveg blygðunarlaust eftir þjóðerni. Bílar sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum fá frítt í stæði.

Á vegum Reykjavíkurborgar mun starfa sérstakt mannréttindaráð. Ráðið mun hafa sérstakar gætur á því að hvergi halli á útlendinga í borgarkerfinu. Hvað þykir þessu ráði um að „innlendir orkugjafar“ njóti sérstakra fríðinda hjá borginni? Og hvað segir annað ekki síður merkilegt apparat í höfuðstað Samfylkingarinnar um þetta augljósa brot á jafnræðisreglu EES samningsins?