Þ að er mikilvægur kostur húskarls að vita hvenær húsbóndinn vill að hann þegi. Á milli núverandi ríkisstjórnar Íslands og núverandi stjórnar „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ er enginn misskilningur að því leyti.
Enn hefur „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ ekki frétt af því, að ekki verður betur séð en að Jóhanna Sigurðardóttir hafi af einhverjum ástæðum komið í veg fyrir að til landsins kæmi forsætisráðherra Kína með hundrað manna viðskiptasendinefnd. Þótt einhver hefði talið að íslenskt viðskiptalíf gæti haft gott af auknum viðskiptum við fjölmennasta ríki heims, og jafnvel alþjóðleg stórveldi taki slíkum heimsóknum eins og happdrættisvinningi, þá gera ríkisstjórnarmiðlanir ekkert með þetta nýjasta afrek úr stjórnarráðinu. Jóhanna æpir einfaldlega „Moggalygi, Moggalygi“, og þá þurfa ríkisstjórnarmiðlarnir ekkert að hugsa um þetta nánar.
Þess vegna hafa „fréttamenn“ nægan tíma til að einbeita sér að mikilvægum málum, eins og umræðum í „stjórnlagaráði“.
Einhvern tímann verður gerð vönduð rannsókn á stjórn Ríkisútvarpsins undanfarin ár, á vali þáttastjórnenda, vali viðmælenda og að sjálfsögðu stjórn „fréttastofu“ þess. Gaman verður að vita hvort fréttamenn og dagskrárgerðarmenn munu eftir þá rannsókn gera sínar hefðbundnu kröfur um að menn „axli ábyrgð á mistökum“ sínum.