S umarið 1987 voru sem oftar gefin út bráðabirgðalög með alls kyns hnykklækningum á hagkerfinu. Einn hnykkurinn var sérstakt bifreiðagjald, 2,15 krónur á hvert kg bifreiðar. Ári síðar voru samþykkt lög sama efnis. Í árdaga bifreiðagjaldsins voru því greiddar 4.300 krónur tvisvar á ári af tveggja tonna ökutæki. Þessar 4.300 krónur jafngilda um 16 þúsund krónum á núverandi verðlagi.
Frá upphafi hefur bifreiðagjaldið því í raun haft sömu áhrif og bensínskattar. Mest er greitt af þungum og þar með eyðslufrekum bílum.
Það hefur ekki breyst þótt gjaldið sé nú reiknað út frá skráðri losun koltvísýrings (grömm CO2 á km) fyrir bílinn. En það þykir sjálfsagt flottara að geta kallað gjaldið grænt og í þágu umhverfisins þótt allir viti að það er lagt á af nákvæmlega sömu ástæðu og 1988, til að afla fjár í ríkissjóð. Reiknikúnstirnar í kringum gjaldið eru líka meiri en áður en sem kunnugt er þykir það mikilvægt á tímum gagnsæis að flækja skattkerfið sem mest menn mega.
En bifreiðagjaldið á tveggja tonna bílinn sem samsvaraði 16 þúsund krónum árið 1988 er nú 28 þúsund krónur. Það er ekki nema 75% hækkun að raunvirði og þykir sjálfsagt ekki mikil hækkun á tímum norrænnar velferðar.