Mánudagur 11. júlí 2011

192. tbl. 15. árg.

A lgengt er í fréttum og umræðum, að starað sé á eina hlið máls, en aðrar gleymist með öllu. Fá dæmi úr hagfræðiskrifum eru lærdómsríkari en það sem gengur undir heitinu „brotna rúðan“. Í einfaldri mynd er slíkt dæmi þannig að pörupiltur brýtur rúðu í verslunarglugga. Kaupmaðurinn barmar sér yfir tjóni sínu við nærstadda þar til spekingslegur vegfarandi bendir á, við almennar undirtektir, að í raun verði þetta vítamínssprauta fyrir fjölda manns. Rúðugerðarmaður fái viðskipti, hann geti þar með keypt sér jakkaföt, sem verði til þess klæðskeri kemst á tónleika svo trompetleikari fær loksins borgað. Allir græða.

En allir þeir sem kinkuðu kolli yfir „margfeldisáhrifunum“ horfðu aðeins í aðra áttina. Á rúðugerðarmanninn sem fékk viðskipti en ekki á kaupmanninn sem þurfti að kaupa nýja rúðu. Áður átti kaupmaðurinn peninga og rúðu, nú á hann aðeins rúðu. Hann frestar því viðgerð á bílnum, bifvélavirki fær ekki launauppbót og hættir því við að fara út að borða, kokkur missir vinnuna og hefur ekki lengur efni á því að fara á tónleika hjá efnilegum trompetleikara sem þar með fær ekki borgað.

Þessi siður, að sjá aðeins aðra hliðina, skýrir oft hvers vegna velviljað fólk samþykkir oft hagfræðilegar ranghugmyndir sem haldið er að því. Sumir sjá til dæmis hið opinbera „skapa störf“ hér og hvar, en horfa ekki til þess að til þess að geta „skapað starfið“ þurfti hið opinbera að skattleggja annars staðar, svo skattgreiðandinn þar gat gert minna. Starfið, sem var „skapað“, sést og þar eru allir ánægðir. Starfið sem ekki varð til annars staðar, vegna skattlagningarinnar, sést hins vegar aldrei, en það sjá miklu færri.

Lítið dæmi af öðru tagi var í fréttatímum gærdagsins. Þar fullyrti hver fréttamaðurinn á fætur öðrum að „Ferðaþjónustan“ tapaði stórfé á hverjum degi sem Múlakvísl væri óbrúuð. Þessu fylgdu kröfur um brúarsmíði á stundinni með stóryrðum um neyðarástand.

Menn sem ætluðu yfir Múlakvísl komast nú ekki og afpanta því gistingu handan árinnar. En engum virðist detta í hug að þessir menn þurfi gistingu eftir sem áður. Þeir hafi að vísu afpantað handan árinnar en borði þá bara, drekki og gisti einhvers staðar annars staðar. Fréttamenn töluðu við alls kyns æsta menn á Suðausturlandi sem höfðu orðið fyrir því að viðskiptavinir höfðu hringt og afpantað. En ætli hvergi hafi nokkur maður pantað annars staðar? Fréttamenn minntust ekki á það. Er allsstaðar „neyðarástand“ en hvergi uppgrip? Fækkaði seldum máltíðum í landinu við það að nú er ekki vegur yfir Múlakvísl? Þessir ferðamenn sem ætluðu yfir Múlakvísl, í austur eða vestur, skolaði þeim öllum á haf út þegar brúin fór?