Í lok síðasta árs gáfu ein öflugustu umhverfisverndasamtök veraldar Environmental Defense Fund út handbók um kvótakerfi í sjávarútvegi, Catch Share Design Manual – A Guide for Managers and Fishermen eftir Kate Bonzon og fleiri. Þar er dreginn lærdómur af reynslu yfir 30 ríkja af kvótakerfi í sjávarútvegi. Undir þessum hatti er reynsla af sókn í mörg hundruð fiskistofna. Og þar er Íslands að sjálfsögðu getið sem brautryðjanda í þessum efnum.
Eins og höfundar segja í inngangi handbókarinnar beina þeir sjónum sínum að kvótakerfi vegna, vísbendinga um að kvótakerfi í sjávarútvegi stöðvi hrun og reisi jafnvel við fiskistofna. Bættur efnahagur fylgi einnig kvótakerfum. Kvótakerfi auki líkur á því að menn haldi sig innan veiðiheimilda og þeim fylgi aukið öryggi, stöðugleiki og bætt kjör sjómanna. Um þetta hafa höfundar viðað að sér ýmsum gögnum.
…that catch share implementation “halts, and even reverses, widespread [fishery] collapse(Costello et al., 2008) and helps drive economic growth (World Bank and Food and Agriculture Organization of the United Nations [FAO], 2008). Specific case studies highlight other potential benefits of catch shares, including increased compliance in meeting catch limits (Griffith, 2008; Essington, 2010) and enhanced safety, job stability and profitability for fishermen (Beddington et al., 2007; Gomez-Lobo et al., 2007; Rose, 2002).
Líkt og Íslendingar þekkja og höfundar handbókarinnar rekja þá er kerfi með seljanlegum aflaheimildum eða kvótakerfi oft leitt í lög eftir að ýmislegt annað hefur verið reynt; fyrst opinn aðgangur og svo alls kyns tæknilegar takmarkanir eins og heildarsóknarmark, hömlur á stærð báta og leyfilegan afla í hverri veiðiferð og bann við veiðum á ákveðnum dögum. Allir gera sér vonandi grein fyrir að opinn aðgangur leiðir á endanum til ofnýtingar og tæknilegar hindranir eins og hömlur á stærð báta leiða til mikillar fjölgunar báta og annarrar offjárfestingar.
Það sem helst vekur áhuga umhverfisverndarmanna á þessari skipan sjávarútvegsmála er vafalaust sú staðreynd að með kvótakerfi fara hagsmunir útgerðarmanna og skynsamlega nýting fiskistofna saman. Það vill enginn búmaður slátra öllum stofni sínum í einu lagi. Hann vill miklu frekar hafa af honum afrakstur án þess að ganga á stofninn. Hann á alltaf þann kost að selja stofninn og því betra verð fæst sem hann er drýgri. Með seljanlegum aflaheimildum gætir útgerðarmaðurinn fiskistofnanna eins og bóndi búsmala. „Með því að veita útgerðarmönnum vísan hlut í aflaheimildum fara þeir að líta á ástand fiskistofna sem langtímahagsmuni sína. Afkoma þeirra í framtíðinni veltur á hegðun þeirra í núinu.“ (bls. 2)
Kannski íslenski vinstri flokkurinn sem kennir sig við grænt ætti að kynna sér þessi viðhorf umhverfisverndarmanna til kvótakerfisins áður en hann eyðileggur íslenska kvótakerfið endanlega. En það breytir sjálfsagt engu því VG hefur fengið um það skipun um málið frá Samfylkingunni og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Fyrir árið 1980 voru fá kvótakerfi við lýði í heiminum en líkt og sjá má á grafinu hér að neðan hefur þeim vaxið fiskur um hrygg undanfarna áratugi.
Hér má svo finna kort af dreifingu kvótakerfa um heiminn og ýmsar aðrar upplýsingar á mynd. Það kemur sjálfsagt ýmsum á óvart hve víða má finna slík kerfi eins og því hefur verið haldið að fólki að þau séu séríslenskt „óréttlæti“.
Bonzon og félagar benda á að í langflestum tilfellum séu kvótarnir framseljanlegir, þá sé hægt að selja eða leigja. Þessi frjálsi markaður með kvótann veiti mönnum möguleika á að laga sig að breyttum forsendum eins og breytingum í leyfilegum afla. Þessi markaður gefi mönnum jafnframt möguleika á að fara út úr greininni og öðrum að koma inn.
Þess eru ekki mörg dæmi að menn bakki út úr kvótakerfum í sjávarútvegi. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart. Eins og komið hefur á daginn hér á Íslandi undanfarna mánuði er eitt að finna kvótakerfinu ýmislegt til foráttu en annað að bjóða upp á eitthvað betra í staðinn.