Laugardagur 18. júní 2011

169. tbl. 15. árg.

Þ ótt Íslendingar séu ekki mjög margir og allir þekki alla eru fjölmiðlar oft furðu lengi að tengja hagsmuni manna saman. Undanfarnar vikur gekk Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis hart fram í að fá samþykkt lög sem taka fiskveiðiheimildir af þeim sem hafa keypt þær og færa þær til þeirra sem fengu stórfé greitt fyrir þær.

Í þessu stóð hún vikum saman án þess að menn veittu því athygli að faðir hennar var einn þeirra sem seldi kvóta á sínum tíma. Það var ekki fyrr en Björn Valur Gíslason alþingismaður beindi athygli manna að því að Lilja Rafney hefði tengsl við sjávarútveg að dálkahöfundurinn Týr í Viðskiptablaðinu setti hlutina í samhengi.

Það hlýtur að vera skemmtilegt fyrir föður hennar að mæta á förnum vegi þeim sem keyptu kvóta af honum í góðri trú. Nei blessaður kallinn, nú er dóttir þín að hrifsa af okkur það sem við keyptum af þér dýrum dómum, það er aldeilis blíðan.

Þetta leiðir hugann að því gríni sem svonefnd hagsmunaskráning“ þingmanna er. Kvótasölu fjölskyldu Lilju Rafneyjar er auðvitað í engu getið en það samviskusamlega fært í hagsmunaskráninguna að Lilja hafi umsjón með Bjarnaborg húsi Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Suðureyri.“

Í hagsmunaskráningunni svonefndu kemur heldur ekki fram hvað eða hverjum þingmenn skulda. Þeir mega skulda einstaklingum, fjármálastofnunum, verktökum eða öðrum fyrirtækjum tugi milljóna króna án þess að það teljist áhugaverðir hagsmunir.