Föstudagur 3. júní 2011

154. tbl. 15. árg.

S á grátbólgni rétttrúnaðarmiðill, Fréttablaðið, kvartaði yfir því á forsíðu sinni í vikunni að greiðslur ríkisins til brotaþola í ofbeldismálum hefðu ekki hækkað á síðustu árum.

Í stað þess að kvarta yfir því, að þessi ríkisframlög hefðu ekki verið hækkuð, hefði verið nær að spyrja hvers vegna skattgreiðendum sé gert að bera ábyrgð á afbrotum ofbeldismanna.

Árið 1995 var leitt í lög að ríkissjóður skyldi greiða skaðabætur og miskabætur til þolenda í ofbeldismálum. Aðdragandinn var sá, að fórnarlömb í kynferðismálum báru sig illa undan því að þurfa sjálf að innheimta dæmdar bætur hjá þeim sem brotið höfðu á þeim, og þá datt mönnum það heillaráð í hug að láta skattgreiðendur borga bæturnar og svo gætu þeir innheimt þær síðar hjá brotamönnunum.

Þetta var síðan útfært þannig í löggjöf að ábyrgð ríkisins takmarkast ekki við þolendur kynferðisbrota heldur er miðað við líkamstjón og miska vegna brota á hegningarlögum. Þegar menn hefja slagsmál á krá og þeim lýkur með því að Grettir nefbrýtur Glám, þá borgar ríkið, skattgreiðendur, Glámi bætur, ef þær eru innan tiltekinna viðmiðunarmarka. Geti Grettir ekki endurgreitt ríkinu, eða sé horfinn út í Drangey og ekki til viðtals, sitja skattgreiðendur uppi með tjónið. En hvað kom þeim málið við?

Er ekki ástæða til að endurskoða þetta? Hvers vegna eiga skattgreiðendur að bera ábyrgð á því er menn fljúgast á? Hvernig væri nú að hætta að vísa leiðindamálum á skattgreiðendur?