Fimmtudagur 2. júní 2011

153. tbl. 15. árg.

L íkt og hér var rakið síðasta haust ákvað borgarstjórn Reykjavíkur að loka Suðurgötu fyrir umferð til norðurs meðfram gamla kirkjugarðinum til að leggja hjólreiðaræmu eftir götunni á þessum hluta, svona eins og einhver með fullu viti hefði áhuga á að hjóla með bílaumferðinni í stað þess að nota gangstéttar í sérlega fallegum samliggjandi götum eða stéttina meðfram Suðurgötunni sjálfri.

Þessi breyting dró að sjálfsögðu ekki úr bílaumferð heldur fór umferðin yfir í hinar fallegu íbúagötur, Tjarnargötu og Ljósvallagötu og Garðastræti. Í Tjarnargötu má nú sjá bíl við bíl á ákveðnum tímum. Borgarstjórn telur eðlilegt að færa umferð frá kirkjugarðsvegg að leikskólalóð.

Fyrir íbúa Suðurgötu var þetta jafnframt skammgóður vermir því einstefnuumferð er að öðru jöfnu hraðari en umferð í báðar áttir. Það á sérstaklega við um jafn þrönga götu og Suðurgötuna, þar sem menn hafa sérstakan vara á þegar þeir þurfa að mæta umferð úr gagnstæðri átt. Því berast nú fréttir af því að lögreglan hafi eftirlit í Suðurgötu vegna kvartana um hraðakstur. Þegar lögreglan stóð þar vaktina í fyrradag óku 57% ökumanna yfir leyfilegum hraðamörkum. Lögreglan veitti því jafnframt athygli að aðeins tveir af þeim átján hjólreiðamönnum sem hún sá til á Suðurgötunni notuðu hjólreiðaræmu borgarstjórnarinnar. Hinir notuðu gagnstéttina eða sjálfa akreinina.

Hve mislukkaður getur einn hjólreiðastígur orðið? Jafnvel þeir fáu sem hjóla götuna sem hann liggur eftir forðast hann sem heitan eldinn.

Hér má segja sem oft áður að óbeit á einkabílnum er ekki sérlega góð ástæða til að hjóla eða til að bæta aðstæður til hjólreiða. Það eru til svo ótal margar betri.

En svo er auðvitað ekki hægt að fullyrða að almenn óbeit á einkabílisma hafi ráðið för borgarstjórnar í málinu. Það kann að vera að aðgerðin hafi verið sértækari en svo. Ætli það geti verið að þessir tveir sem lögreglan sá nota hjólreiðastíginn hafi verið á leið í sykurmolakaffi í Suðurgötunni?