Miðvikudagur 1. júní 2011

152. tbl. 15. árg.
Það er óeðlilega mikið reykt í íslenskum myndum. Það er viðurkennt.
– Sigríður Ólína Haraldsdóttir læknir, í fréttum Ríkisútvarpsins 1. júní 2011.

L iðið sem vill banna öðru fólki að njóta tóbaks heldur áfram sókn sinni, enda ætlar það ekki að hætta fyrr en það hefur með öllu haft samborgara sína undir í málinu. Sigríður Ólína þessi mun hafa unnið með þingmönnunum átta sem lagt hafa fram þá þingsályktunartillögu gegn reykingum annarra, sem Vefþjóðviljinn fjallaði um í gær. Og í fréttum kom Sigríður Ólína með þessa speki, til þess að réttlæta þá tillögu að fjárstyrkjum hins opinbera verði beitt til þess að koma í veg fyrir að persónur í bíómyndum sjáist reykja. „Það er óeðlilega mikið reykt í íslenskum myndum. Það er viðurkennt“. Segir læknirinn. Læknar eru svo klárir, nema Kári því hann rak fyrirtæki.

„Það er óeðlilega mikið reykt í íslenskum myndum. Það er viðurkennt,“ segir Sigríður Ólína. Þá má spyrja, svona ef menn ímynda sér að yfirleitt sé hægt að rökræða við óða tóbaksandstæðinga: Hver hefur viðurkennt það? Hvað eru eðlilegar reykingar í íslenskum myndum? Á jafnt hlutfall kvikmyndapersóna og raunverulegra persóna að reykja? Gildir þá sama regla á öðrum sviðum? Á jafnt hlutfall kvikmyndapersóna og raunverulegra persóna að vera glæpamenn, fíkniefnasalar, lögreglumenn og sætar stelpur? Eiga kvikmyndir að sýna raunsæja mynd af þjóðlífinu og mannlegri breytni? Hver segir þetta?

Getur Sigríður Ólína Haraldsdóttir læknir svarað þessu, helst af ekki minni sannfæringu en hún fullyrti við hlustendur Ríkisútvarpsins að það væri viðurkennt að óeðlilega mikið sé reykt í íslenskum myndum? Hvaðan kemur forsjárhyggjuliðinu heimildin til þess að skipta sér af því hvernig annað fólk lifir lífi sínu, svo lengi sem það brýtur ekki betri rétt annarra? Maður sem fer í bíó, á hann rétt á því að persóna á tjaldinu lifi hollu lífi, á tjaldinu? Maður sem fer á leiksýningu sem aðrir menn halda, á hann rétt á því að persóna í leikritinu reyki ekki? Var maðurinn neyddur á sýninguna? Maður sem fer á skemmtistað og vill hvorki vera í miklum hávaða né tóbaksreyk, á hann rétt því að að reykingamönnum sé vísað út og dregið niður í græjunum þegar hans hátign meinlætamaðurinn gengur í salinn?