Í gær voru samþykkt á Alþingi ný lög um „stöðu íslenskrar tungu“, því um hana verða auðvitað að gilda sérstök lög. Meðal nýmæla laganna er að „íslenskt táknmál [sé] fyrsta mál þeirra sem [þurfi] að reiða sig á það til tjáningar og samskipta“. Frumvarpið var lagt fram í febrúar og var þá afgreitt til nefndar þar sem það var fram yfir miðjan maí. Í gær var það hins vegar afgreitt sem lög frá Alþingi og sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því, eins og nærri mátti geta. Páll Magnússon útvarpsstjóri las inngang fréttarinnar og því næst tók þingfréttaritarinn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir við og sagði langa frétt af málinu þar sem hún klykkti út með því að á þingpöllum hefði verið fagnað „afar mikilvægum sigri í baráttu fyrir mannréttindum.“
Á meðan frumvarpið til laganna var enn til meðferðar í þingnefnd, mánudaginn 9. maí, birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem Alþingi var hvatt til að „viðurkenna íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra“. Með öðrum orðum, þarna var opinberlega hvatt til þess að þetta frumvarp yrði samþykkt á þinginu. Undir þessari áskorun voru birtar myndir af nokkrum þjóðþekktum einstaklingum sem allir voru klæddir í bol, með áletrun til stuðnings málinu. Meðal þeirra sem þarna birtust voru Páll Magnússon útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir þingfréttaritari Ríkisútvarpsins, bæði klædd í bol með áletruninni „Táknmál er töff.“
Nú má segja að málið hafi að endingu verið samþykkt samhljóða. Mörgum finnst þetta mikið framfaramál og samgleðjast heyrnarlausum og aðstandendum þeirra með að hafa náð fram þessu gamla baráttumáli sínu. En það breytir ekki þeirri staðreynd að útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins og þingfréttaritari þess skoruðu opinberlega á þingmenn að samþykkja tiltekið lagafrumvarp sem til meðferðar var – og sögðu svo sjálf frétt af niðurstöðunni þegar hún lá fyrir.
Er þetta eðlilegt? Hvaða sögu segir það um fagmennskuna á fréttastofu Ríkisútvarpsins að fréttamanni, sem opinberlega hefur hvatt til ákveðinnar lagabreytingar, sé falið að gera frétt um það þegar þingið samþykkir breytinguna? Hvað svo sem mönnum finnst um lagabreytinguna sem slíka, þá breytir efni hennar engu um þá staðreynd að útvarpsstjóri og þingfréttaritari hvöttu alþingi opinberlega til að breyta lögum, og sögðu svo sjálf frétt af því þegar það hafði gengið eftir. Það, að útvarpsstjóri sjái ekkert athugavert við að koma sjálfur fram í auglýsingu þar sem skorað er á þingmenn að samþykkja tiltekna lagabreytingu, skýrir kannski að einhverju leyti hvernig komið er fyrir Ríkisútvarpinu og hversu lausan taum einstakir starfsmenn þess virðast hafa til þess að berjast fyrir eigin skoðunum.