Á rið 2004 er talið að áfengi hafi verið auglýst með beinum hætti fyrir um 200 milljónir punda í Bretlandi. Ef slík tala væri heimfærð á Ísland með gömlu góðu höfðatölureglunni gæti hún verið í kringum 200 milljónir króna. Ef áfengisauglýsingar væru leyfðar með sama hætti og í Bretlandi kæmi langstærstur hluti þessarar fjárhæðar í hlut íslenskra fjölmiðla. Að einhverju leyti hafa þessir peningar skilað sér til íslenskra fjölmiðla undanfarna áratugi því auglýsingar á til að mynda léttöli hafa verið notaðar til að minna á bjór undir sama merki.
Bann við áfengisauglýsingum sem héldi að öllu leyti – eins og norræna velferðarstjórnin ætlar að setja – væri auðvitað fyrst og síðast bann við auglýsingum á íslenskum bjór í íslenskum fjölmiðlum. Auglýsingar á erlendum bjór og öðrum áfengi myndu sem fyrr sjást í öllum þeim erlendu fjölmiðlum sem Íslendingar nýta sér.
Þetta kemur glöggt fram í frumvarpinu þar sem Jón og father John fá ólíka meðferð:
Hvers konar auglýsingar og aðrar viðskiptaorðsendingar til markaðssetningar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Bann þetta tekur einnig til vökva sem er undir 2,25% af hreinum vínanda ef hann er settur á markað í umbúðum sem eru svo líkar umbúðum áfengra drykkja að hætta sé á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum og öðrum viðskiptaorðsendingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
Með viðskiptaorðsendingu er átt við texta, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja beint eða óbeint athygli á áfengistegundum eða atriðum tengdum áfengisneyslu og er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Til viðskiptaorðsendinga teljast auglýsingar, kostun og vöruinnsetning, svo og duldar viðskiptaorðsendingar sem er ætlað að þjóna auglýsingamarkmiðum og geta villt um fyrir neytanda að því er eðli þeirra varðar. Bannið tekur með sama hætti til viðskiptaorðsendinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í viðskiptaorðsendingum sem er ætlað að markaðssetja þá drykki, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna, ekki sé vísað til hinnar áfengu framleiðslu og ekki hætta á ruglingi milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að markaðssetja vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna. Bann skv. 1. mgr. á ekki við um: |
Nú þegar fjölmiðlar eru ekki aðeins orðnir rafrænir heldur í auknum mæli settir saman af notandanum sjálfum eru þessi markmið sérlega einfeldningsleg. Vafri í tölvu hvers og eins er stærsti fjölmiðillinn nú um stundir. Hvað þar streymir inn er valið af hverjum og einum. Það er engin leið að hafa stjórn á því hvaðan efnið kemur eða á hvaða tungumáli það er. Margvíslegt íslenskt efni er nú þegar hýst erlendis. Má það innihalda áfengisauglýsingar eða „viðskiptaorðsendingar“?
Og hvað með miðla eins og Facebook, Twitter og alls kyns aðrar gáttir í fjarskiptum nútímans? Til hvaða bragða ætlar innanríkisráðherra að grípa til að stöðva „viðskiptaorðsendingar“ um áfengi um slíkan vettvang? Á að koma í veg fyrir að hver og einn sæki sér þessar upplýsingar?
Þegar menn ætla sér að banna brugghúsum að tjá sig um framleiðslu sína í auglýsingum í fjölmiðlum er svo rétt að hafa í huga að beinar auglýsingar í Bandaríkjunum eru aðeins taldar um fjórðungur af þeirri kynningu sem fram fer á áfengi.
Það kann að virðast erfitt að komast framhjá banninu í frumvarpsgreinin hér að ofan en það verður gert. Það verður bara meira umstang og kostnaður í kringum það en áður.
Það er fullkomlega óraunhæft markmið að ætla að stöðva kynningu á löglegri vöru.