N ú berast þau tíðindi úr fjármálaráðuneytinu að ráðherrann ætli að auka við þann skammt af áfengi sem menn mega hafa með sér á lágu áfengisgjaldi og án virðisaukaskatts inn í landið. Hin auknu fríðindi nema, eftir því sem fregnir herma, einum kassa af bjór.
Frá því Steingrímur J. Sigfússon komst í fjármálaráðuneytið fyrir rúmum tveimur árum hefur hann snarhækkað gjöld á áfengið sem selt er í einokunarverslunum ríkisins. Virðisaukaskatturinn var einnig hækkaður á áfengi eins og annað. Áfengi er meiri munaður en fyrr.
Þá kemur góði ráðherrann og deilir út bjórdósum á lægra verði til ákveðins hóps.
Þetta er leikur vinstri manna. Hækka skatta en veita ákveðnum fríðindi. Banna en veita ákveðnum undanþágur. Fyrna eigur manna og endurúthluta til ákveðinna hópa.
En hvorn hópinn ætli muni meira um áfengi með skattaafslætti, þann sem er á ferð og flugi milli landa eða hinn sem hefur ekki efni eða aðstæður til utanlandsferða?