Miðvikudagur 18. maí 2011

138. tbl. 15. árg.

E ins og menn vita hyggst ríkisstjórnin nú efna til atlögu að sjávarútveginum, þessari mikilvægustu undirstöðu íslensks efnahagslífs við núverandi aðstæður. Það gerir hún auðvitað ekki til að auka hagkvæmni í greininni heldur eingöngu til að koma fram pólitískum kreddum áköfustu stuðningsmanna sinna kratamegin.

En atlagan er ekki aðeins sýnishorn af ábyrgðarkennd stjórnarherranna á tímum þegar efnahagslífið þarf margt annað en að vegið sé að undirstöðum þess. Hún sýnir margt annað um ríkisstjórnina, dæmin geta raunar orðið næstum óteljandi.

Í Morgunblaðinu í gær er talað við Pétur Pétursson, skipstjóra og eiganda aflamarksbátsins Bárðar SH, sem er fimmtán metra langur bátur sem gerður er út frá Arnarstapa og Ólafsvík. Pétur segir að allar aflaheimildir bátsins hafi verið keyptar á almennum markaði.

Árið 2007 keyptum við kvóta fyrir um hálfan milljarð króna og nokkru síðar var hann skorinn niður um þriðjung. Eins og þá tíðkaðist voru lánin í erlendri mynt, þannig að þau hafa hækkað gríðarlega í íslenskum krónum. Við þurftum sem sagt að taka á okkur mikla skerðingu en samkvæmt þessum tillögum ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að útgerðirnar njóti þess þegar óhætt verður talið að auka veiðarnar, heldur fari aukningin í einhverja óskilgreinda potta. Ég hefði haldið að þetta ætti að virka í báðar áttir, en svo virðist ekki vera. Auk þess er rætt um nýtingarleyfi til 15 ára og á miðju tímabili eigi leyfishafar rétt á viðræðum við stjórnvöld. Þetta er vægast sagt óskýrt og hlýtur að setja allar fjárfestingar í greininni í fullkomið uppnám.

Eitt af því sem margir dásama eru nýleyfðar strandveiðar. Pétur skipstjóri segir hins vegar að þeir sem þær stundi hafi flestir farið út úr greininni á sínum tíma, selt aflaheimildir sínar en haldið bátunum eftir. Þessa menn verðlauni ríkisstjórnin nú sérstaklega, þótt þingmenn flokkanna hafi áður gagnrýnt þá svo mjög fyrir að innleysa hagnað vegna viðskipta með aflaheimildir.

En svona er réttlæti ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar. Fyrst er aflaheimildum úthlutað og í tíð fyrri vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms er framsal þeirra heimilað. Útgerðarmaðurinn Gunnar selur þá Njáli kvóta, en Njáll tekur lán fyrir honum og treystir á eigin dugnað og útsjónarsemi til að borga lánið en hafa samt hagnað af útgerðinni. Þá koma Jóhanna og Steingrímur aftur, taka kvótann af Njáli, sem þá á bara skuldirnar eftir, og bjóða kvótann upp. Hver kemur þá ekki glottandi með fullar hendur fjár nema vinur okkar Gunnar, og á ekki í vandræðum með að yfirbjóða Njál sem ekki ræður við að tvíkaupa sama kvótann.

Þetta er allt gert í nafni réttlætis. Njáll kemst í þrot og missir bátinn líka. Gunnar kaupir hann á uppboði fyrir lítið.

Gunnar getur svo dundað sér við strandveiðar sér til skemmtunar. Kannski býður hann Njáli pláss, svo hann geti unnið upp í skuldir sínar. Það er alltaf hægt að nota öflugan háseta.