Í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld var rætt við einn af stjórunum í nýja tónlistarhúsinu, en nú þegar eru komnir yfir 10 menn til starfa með stjóratitil. Hún sagði frá því að fyrr um daginn hefði verið dagskrá fyrir börnin því það væri jú „börnin sem myndu eiga húsið“.
Fallegt, ekki satt? Við erum góða fólkið sem gefum börnunum tónlistarhús. Það er að vísu þannig að næstu 35 árin er húsið með áskrift að 800 milljónum króna á ári úr vösum skattgreiðenda, þar með talið þeirra sem nú eru á barnsaldri og koma út á vinnumarkaðinn á næstu áratugum.
Og hvarflar það að nokkrum manni að þar með verði skattgreiðendur lausir allra mála? Að þessi „samningur“ verði ekki framlengdur? Líklegast er þó að ekki þurfi að bíða í 35 ár eftir nýjum reikningum. Að nokkrum árum liðnum verða fluttar fréttir af því að ríki og borg ætli að funda um viðbrögð við rekstrarvanda tónlistarhússins. Ljóst sé að 800 milljónir króna á ári dugi skammt. Börnin verði að borga meira framvegis því það séu jú þau sem muni eiga húsið.
Þegar mið er tekið af því hvernig tónlistarhúsinu var smokrað framhjá fjárveitingarvaldi Alþingis, subbulegri einkaframkvæmd, gjaldþroti fyrirtækjafléttunnar sem notuð var til að fela kostnað við húsið, undarlegrar aðkomu gamla Landsbankans og nýja ríkisbankans að makkinu og fullkomnu virðingarleysi ríkis og borgarstjórnar við fé almennings er við hæfi að húsið sé kennt við Hrappa.