Á hverjum föstudegi tekur Jónas Jónasson á móti kvöldgesti í Ríkisútvarpinu. Þátturinn er orðinn með þeim lífseigari og kemur meðal annars til af því tvennu að Jónas á gott með að fá fólk til að tala um sjálft sig, og þeir sjálfir eru auk þess umræðuefni sem mörgum er hugstætt. Oft eru þetta prýðilegir þættir, einkum þegar gesturinn er í eldri kantinum og þeir stjórnandinn taka saman að rifja upp sögur af fólki sem báðir hafa þekkt.
Fyrir viku var gestur Jónasar þjóðkunnur myndlistarmaður og raunar einn af þeim betri nú til dags. Hafði hann frá mörgu að segja, enda bæði hann sjálfur og ýmsir af hans nánustu staðið í alls kyns volki. En því er þetta þulið hér, að lítið atriði í þættinum var áhugavert frá almennu sjónarmiði. Myndlistarmaðurinn sagði í framhjáhlaupi frá því að hann hefði fyrr á árum starfað af krafti í félagi Trotsky-ista og þá verið önnum kafinn að dreifa bæklingum og boða byltingu.
Frá þessu sagði hann í örfáum orðum og svo barst talið að öðru. Það væri gaman að ímynda sér viðbrögðin sem hefðu orðið ef hann hefði sagst hafa starfað árum saman í nasistafélagi, dreift ljósritum úr Mein Kampf og talað fyrir endurreisn þriðja ríkisins. Það er hætt við að fólki hefði brugðið illa. Enginn segir hins vegar neitt við því að hann hafi boðað byltingu Trotsky-ista.
Í vikunni voru mjög einkennileg ummæli höfð eftir danska kvikmyndaleikstjóranum Lars Trier, sem staddur var á kvikmyndahátíð í Cannes í Frakklandi. Eftir því sem á annað borð var hægt að fá samhengi í orð hans, virtist leikstjórinn hafa komið sér upp samúð með Adolf Hitler, þar sem hann sá kanslarann fyrir sér í byrgi hans í Berlín á lokadögum styrjaldarinnar. Þessi ummæli og önnur svipuð vöktu hörð viðbrögð og leikstjórinn hrökklaðist burt af hátíðinni.
Gaman væri að vita hvort einhver hefði sagt nokkurn skapaðan hlut, ef leikstjórinn hefði sagst hafa samúð með Lenín og að hann sjálfur væri að vissu leyti kommúnisti. Ætli hann hefði ekki þótt nákvæmlega jafn fínn pappír og áður, og verk hans yrðu oft rædd í Víðsjá?
Í Bóksölu Andríkis eru þrjár bækur sem mæla má með við alla þá sem sérstaka samúð hafa með þeim Lenín og Hitler, eða vilja kynna sér nánar hvers vegna menn gerast ekki fylgismenn þeirra. Kommúnismann eftir Richard Pipes, Svartbók kommúnismans eftir hóp fræðimanna og Nótt eftir Nóbelsverðlaunahafann Elie Wiesel ættu allir að eiga og lesa.