Mánudagur 16. maí 2011

136. tbl. 15. árg.

U m helgina fór fram fundur sem nefndur var landsfundur Hreyfingarinnar, en Hreyfingin er félag þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar, sem yfirgáfu þann flokk stuttu eftir síðustu þingkosningar. Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem fullyrt var að ríkisstjórnin leiddi landsmenn fram af „efnahagslegu hengiflugi“ og að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar réðu ekki við starf sitt.

Það er ýmislegt til í þessu. Ríkisstjórnin vinnur ýmis skemmdarverk á íslensku efnahagslífi og aðgerðir hennar hafa mjög tafið fyrir efnahagsbata. Það sem þó gerist til góðs í íslensku atvinnulífi gerist þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki vegna hennar.

En hvers vegna sitja landsmenn uppi með þessa lítt gæfulegu ríkisstjórn? Í fyrsta lagi geta kjósendur sjálfum sér um kennt. Meirihluti þeirra sem á annað borð kaus valdi flokka sem allir gátu sagt sér að myndu reynast illa, og enn verr saman. Meginsökin er hjá hinum almennu kjósendum í landinu.

Annar hluti sakarinnar liggur hjá stjórnarandstöðunni. Stjórnarherrarnir geta gengið að því vísu, að alveg sama hversu vitlaust, kreddufullt eða skaðlegt mál þeir leggja fram, þá munu einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar hlaupa út undan sér, stökkva til og styðja málið. Hvort sem það er gert af gegnheilum misskilningi, langvarandi andstöðu við þjóðfélagsskipanina eða þá bara af ofnæmi fyrir heilindum, þá gerir þessi staðreynd ríkisstjórninni mun auðveldara að sitja áfram, deila og drottna.

Svo lengi sem stjórnarandstöðuþingmenn halda áfram að hlaupa til liðs við ríkisstjórnina, hvort sem er við þráhyggju hennar gegn stjórnarskránni, við að koma Icesave-ánauðinni á landsmenn eða þá við almennt þjóðfélagsniðurbrot, þá munu landsmenn sitja uppi með ríkisstjórnina, sem mynduð var eftir þingkosningar þar sem helsta kosningaslagorð Samfylkingarinnar var „tryggjum verkstjórn Jóhönnu“.