Helgarsprokið 15. maí 2011

135. tbl. 15. árg.

E ftir að íslenskir vinstrimenn töpuðu tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum á jafn mörgum árum fóru að birtast fréttir og greinar í blöðunum um að kannski séu þjóðaratkvæðagreiðslur alveg meingallað fyrirbrigði. Fram til þessa höfðu nær eingöngu birst fréttir og ritstjórnarefni í stærstu fjölmiðlunum um að beint lýðræði væri óhjákvæmilegt.

Nú hefur það til dæmis spurst til Íslands að Kaliforníuríki hafi verið nær gjaldþrota um árabil vegna tíðra almennra atkvæðagreiðslna um alls kyns mál.

Í Fréttablaðinu í gær skaut svo þýski stjórnlagafræðingurinn Constanze Stelzenmüller upp kollinum. Hún hefur væntanlega komið til landsins með póstskipinu sem flutti hingað fréttabréfið um gjaldþrot Kaliforníu vegna almennra atkvæðagreiðslna.

Stelzenmüller er orðin svartsýn á beint lýðræði eftir að hafa rannsakað málið vegna doktorsritgerðar.

Ég verð að segja að meðan ég var að rannsaka þetta og þangað til ég lauk við að skrifa þetta þá snerist ég frá bjartsýni yfir í svartsýni á þjóðaratkvæðagreiðslur. Það þýðir ekki að ég sé á móti þeim, en ég held að við höfum tilhneigingu til að vanmeta fulltrúalýðræði og jafnvægið sem þarf að vera milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins. Því reyndari og eldri sem ég verð því betur átta ég mig á því hve dýrmætt þetta er.

Ekki koma Vefþjóðviljanum þessar efasemdir á óvart. Hann hefur viðrað þær um árabil og oftast verið einmana við þá iðju. Til dæmis hér og einnig hér að gefnu tilefni. Um málflutning beinslýðræðissinna sagði Vefþjóðviljinn fyrir áratug:

Þeir gefa nefnilega í skyn að með þjóðaratkvæðagreiðslum nái einstaklingurinn meiru fram en í gegnum fulltrúalýðræðið sem við búum við í dag. Þetta er misskilningur. Þegar mál eru færð úr höndum einstaklinga og fyrirtækja þeirra á markaði inn á stjórnmálasviðið er skaðinn þegar orðinn. Valdið hefur verið fært frá einstaklingunum til illa- eða óskilgreinds meiri hluta. Neytendavaldi er breytt í meirihlutaræði. Þjóðaratkvæðagreiðsla breytir engu þar um. Þeir sem eru andsnúnir ákvörðunum meirihlutans eru engu bættari með að meirihluti þeirra sem mættu á kjörstað í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi tekið ákvörðunina en ekki meirihluti á þingi. Það má raunar refsa meirihluta á þingi í næstu þingkosningum með því að kjósa eitthvað annað en meiri hluta þess hluta þjóðarinnar sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu verður ekki refsað enda veit engin hver hann er og engin leið er til að refsa honum eins og stjórnmálamönnum er refsað í almennum kosningum.

Helstu stuðningsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu virðast svonefndir popúlistar eða upphlaupsmenn og lýðskrumarar sem eiga erfitt með að ná almennum stuðningi. Þess vegna vilja þeir fremur efna til átaka og kosninga um einstök mál en almenna stefnu. Þess vegna vilja þeir fremur þjóðaratkvæðagreiðslur en fulltrúalýðræði. Fulltrúalýðræðið býður vissulega upp á misnotkun. Öflugir og oft litlir hagsmunahópar beita áhrifum sínum í einstökum málum og hafa sitt fram á afmörkuðu sviði. Úr þessum galla verður þó helst bætt með því að færa verkefni frá stjórnmálamönnum út á markaðinn til einstaklinganna. Þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál, ekki síst ef þær verða að hversdagslegum vana og dregur úr þátttöku, bjóða einnig upp á að þeir hópar sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta beiti sér af nægu afli til að hafa sitt fram. Hvað segir þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem 25% greiða atkvæði með og 26% á móti? Eru menn einhverju nær um það fráleita hugtak sem „vilji þjóðarinnar“ er?

Fyrir fimm árum sagði Vefþjóðviljinn einnig svo frá grein Indriða H. Indriðasonar lektors í stjórnmálafræði í tímariti stjórnmálafræðinema:

Indriði tekur dæmi af því að ef velja eigi á milli þriggja kosta, sem geti kallast Keflavík, Álftanes og Vatnsmýri, þá megi vel vera að atkvæðagreiðsla skili alls ekki „vilja fólksins“ enda sé hann ekki endilega skýr. Sú staða geti komið upp, og það þurfi ekki að vera óraunhæft, að ríflega helmingur kjósenda verði alltaf ósáttur við niðurstöðuna. Þá geti skipt máli í hvaða röð er kosið ef kjósa eigi oftar en einu sinni til að ná niðurstöðu. Sá sem sjái um atkvæðagreiðsluna geti því ráðið niðurstöðunni með því einfalda móti að ákveða röðina í kosningunni. „Í stað þess að dreifa valdinu og veita þegnunum aukin áhrif hefur valdinu í raun verið þjappað saman. Af þessu leiðir, að hvaða fyrirkomulag er valið til að halda þjóðaratkvæðagreiðslur, hvernig valkostirnir eru skilgreindir og hvernig kosið er skiptir allt miklu máli,“ segir Indriði.

Hann veltir því upp hvort ólíklegt sé að þessi staða komi upp, en segir að svo sé ekki. Sýnt hafi verið fram á að hliðstæð vandamál séu alltaf til staðar ef ákvörðunin sem taka þurfi sé „nægilega“ flókin. Í grófum dráttum megi segja, að ef ákvörðunin feli í sér tvær víddir, til dæmis kostnað og staðsetningu, þá sé vandinn til staðar. „Og það sem meira er, sá sem fær að ákveða fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar getur fengið hverja þá niðurstöðu sem hann kýs.“

Indriði segir ennfremur: „Það skref að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur auðveldar okkur ekki nema í undantekningartilvikum að finna „vilja fólksins“, heldur felur það einfaldlega í sér nýja dreifingu á ákvörðunartökuvaldi samfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að sú niðurstaða verði lýðræðislegri nema í mjög yfirborðskenndum skilningi þess orðs. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru hvorki góðar né slæmar í eðli sínu og það er því alls ekki augljóst mál að þær eigi að hafa stærra hlutverk í sameiginlegri ákvörðunartöku okkar.“

Við þetta má svo bæta því umhugsunarefni hvort þjóðaratkvæðagreiðslur séu ef til vill einungis nothæfar sem neyðarhemill á ákvarðanir kjörinna fulltrúa. En eins og menn þekkja þá senda stjórnmálamennirnir málin bara aftur af stað örlítið breytt, hvort sem það er Icesave-ánauðin eða nýjasta stjórnarskrá Evrópusambandsins.