Þ að væntanlega til marks um þá frjálshyggju sem óð uppi á Íslandi á árunum fyrir bankahrun að heill borgarfulltrúi, Kjartan Magnússon, greiddi atkvæði gegn byggingu tónlistarhússins fyrir fé skattgreiðenda. Aðeins allir hinir 14 borgarfulltrúarnir studdu 35 ára ánauð skattgreiðenda vegna hússins. Svona fór nú frjálshyggjan sem eldur í sinu um íslenskt samfélag.
Kjartan skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann vekur athygli á því að allir fjölmiðlar landsins lofi húsið einum rómi en enginn þeirra reyni að skýra fyrir almenningi hver kostnaðurinn við þetta dýrasta hús Íslandssögunnar er. Allt upp á borðum á nýja Íslandi gegnsæis. Enda studdu allir fjölmiðlarnir bygginguna, bæði fyrir bankahrunið og svo eftir það þegar þó var ljóst að ríkissjóður og Reykjavíkurborg voru sokkin í skuldafen.
Í leiðurum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins er stundum látið eins og skattar hafi verið hækkaðir óhóflega á almenning á undanförnum misserunum. Er ekki hætt við að sú réttmæta gagnrýni þyki léttvæg þegar menn láta sér lynda að skattgreiðendur séu skuldbundnir til að greiða 700 milljónir króna á ári í 35 ár í fyrir eitt stykki tónlistarhús?
Mikill bæklingur um húsið er nú sendur inn á hvert heimili en þeim sem greiða kostnað við húsið ekki sýnd sú lágmarkskurteisi að gera grein fyrir kostnaði við byggingu þess.
Um þetta segir Kjartan í grein sinni:
Full þörf er á að fjallað sé á gagnrýninn hátt um Hörpu eins og önnur verkefni og skattgreiðendur upplýstir um kostnað og óhjákvæmilega skuldadaga.
Í bæklingi um húsið, sem dreift hefur verið inn á hvert heimili, er ýtarlega fjallað um ýmsa þætti byggingarinnar en ekki minnst á kostnað. Í slíkum bæklingi hefði verið kjörið að upplýsa alþjóð um kostnað við bygginguna og heildarskuldbindingu skattgreiðenda. Skuldir hússins eru a.m.k. sá hluti þess, sem allir landsmenn munu eiga sameiginlega. Harpa er dæmi um opinbert verkefni, sem stjórnmálamenn voru í upphafi fengnir til að styðja á grundvelli hóflegra kostnaðaráætlana en á síðari stigum hækkaði kostnaður upp úr öllu valdi. |
Fjölmiðlum til málsbóta má þó nefna að um tónlistarhúsið var búið til völundarhús félaga, skúffufélaga og dótturfélaga og inn í málið blandast bæði gjaldþrota banki og nýr ríkisbanki með yfir hundrað milljarða króna framlag úr ríkissjóði, ríkið og Reykjavíkurborg. Það er ekki fyrir hvern sem er að sjá til botns.