Helgarsprokið 24. apríl 2011

114. tbl. 15. árg.

C harles Ferguson og aðrir höfundar Óskarsverðlaunamyndarinnar Inside Job lýsa því yfir í upphafi hennar að þeir muni skýra fyrir áhorfendum hvers vegna fjármálafyrirtæki um allan heim lentu í miklum erfiðleikum haustið 2008.

Myndin hefst raunar á Íslandi og sagt er frá stóru bönkunum þremur Íslandsbanka, Kaupþingi og Glitni. Vönduð vinnubrögð frá fyrstu mínútu. Svo er rætt við Gylfa Zoëga hagfræðiprófessor sem talar um íslensku bankana af nokkru yfirlæti, líkt og hefur þótt góður siður í fermingarveislum eftir 2008. En hvers vegna varaði Gylfi þá ekki landa sína við bönkunum fyrir hrunið? Hagfræðiprófessor sem vinnur við að fylgjast með fjármálum þjóðarbúsins ætti að vera í sæmilegri aðstöðu til þess. Gylfi hefur talið það eðlilegt að ríkissjóður Íslands fái reikninginn fyrir hinu mislukkaða viðskiptaævintýri Landsbankans í Bretlandi og Hollandi og gildir þá einu hvort Bretar reikni sér 3,3 eða 5,5% vexti ofan á ofurvextina sem þeim var lofað á Icesave netreikningunum. Hvers vegna lét Gylfi þess aldrei getið í umræðum um helstu hagstærðir á Íslandi fyrir hrun að ríkissjóður væri í ábyrgð fyrir innlánum bankanna erlendis? Áður óþekkt ríkisábyrgð upp á nokkur þúsund milljarða króna hefði þótt tíðindum sæta.

Einnig er rætt við Andra Snæ Magnason rithöfund og stjórnarmann í samtökunum Framtíðarlandinu sem kunn eru fyrir andstöðu sína gegn virkjunum. Höfundar myndarinnar virðast telja að þær virkjanir og álver sem hér hafa verið reist á undanförnum árum þeki hálendið að mestu leyti og þessar framkvæmdir hafi orðið vegna þess sem þeir kalla „deregulation“ eða aukins frelsis í þessum efnum. En voru það ekki fyrirtæki ríkis og borgar sem voru að virkja og það jafnvel án þess að hirða um að fá leyfi landeigenda áður en framkvæmdir hófust? Nær væri að nefna þessar opinberu framkvæmdir aukin ríkisafskipti en „deregulation“. Það er óvíst að nokkuð hefði orðið af þessum framkvæmdum ef ríkið, með eigið orkufyrirtæki og lagasetningarvald, hefði ekki verið í aðalhlutverki.

Í þessu samhengi mætti einnig einnig rifja upp að ein röksemdin gegn virkjunum og álverum hér fyrir nokkrum árum var að það væri ekki þörf á þeim því nóg væri af störfum í útrásarbönkum og fleiri svonefndum þekkingarfyrirtækjum í Reykjavík? Framtíðarlandið gekk jafnvel svo langt í þessu að gera orð forstjóra eins útrásarfyrirtækjanna að sínum í ályktun.

Ég er sannfærður um að jafnvel þó að Íslendingar nái því að komast í hóp stærstu álframleiðenda heims og myndu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis.

Eitt undarlegasta augnablikið í myndinni er þegar sýnt er frá skrílslátum á Austurvelli veturinn eftir hrunið. Þar hrópar Kolfinna Baldvinsdóttir fyrrum starfsmaður framkvæmdastjórnar ESB í sjónvarpsmyndavélar erlendra fjölmiðla „How could this happen?“ Nú, helsta kenning myndarinnar er að allt hafi þetta gerst með „deregulation“ fjármálageirans án þess þó að á það sé bent hvaða reglur voru slegnar af. Á Íslandi voru helstu reglugerðarbreytingar um fjármálastarfsemi á árunum fyrir hrun þær sem Íslendingar fengu í pósti frá Brussel vegna EES samningsins. Þess samnings sem Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra gerði við ESB. Allar götur síðan hafa Evrópusinnar haldið því fram að Íslendingar geti allt eins gengið í ESB því þeir séu hvort eð er búnir að leiða allar tilskipanir sambandsins í lög. Þegar ESB gerði skoðun á því hvernig Íslendingar stæðu sig í því að leiða póstinn um fjármálastarfsemi í íslensk lög var niðurstaðan að Ísland væri „highly aligned“ við sambandið. Það er því sannarlega gaman að sjá dóttur Jón Baldvins og fyrrum starfsmann ESB hrópa til erlendra sjónvarpsáhorfenda eftir skýringum á því hvernig þetta gat eiginlega gerst.

Charles Ferguson og félagar hafa augljóslega ætlað sér að segja glæpasögu og negla nokkra auðróna af Wall Street á hvíta tjaldið í lokin. Það gengur nú svona og svona. Verðbréfasalar og bankamenn sem seldu skuldabréfavafninga sem þeir vissu að voru svo gott sem ónýtir eru auðvitað ekki sérlega upplitsdjarfir þegar þeir svara spurningum um það efni fyrir þingnefndum. Háskólaprófessorar eins og Frederic Mishkin, félagi Tryggva Þórs Herbertssonar, eru hafðir að háði og spotti, en ekki er hægt að segja að það sé óverðskuldað. Richard Portes, félaga Friðriks Más Baldurssonar, er ekki heldur riðið heim til Hóla. Viðskiptaráð Íslands hefur beðist velvirðingar á því að hafa fengið þessa menn til að skrifa skýrslur um íslenskt efnahagslíf fyrir furðulegar fjárhæðir. Einhver sem hefði veitt svo fráleita ráðgjöf, sem þessir hagfræðingar gerðu, hefði séð sóma sinn í að skila þóknuninni. Ekki hefur hvarflað að íslenskum fjölmiðlum, hvað þá Viðskiptaráði sjálfu, að viðra slíka hugmynd við Tryggva Þór og Friðrik Má. Ólíklegt má telja að hún komi frá þeim sjálfum.

Í Inside Job kemur skýrt fram að mikil lánsfjárbóla var blásin upp á árunum fyrir hrunið, allir gátu keypt allt fyrir lánsfé. Engin tilraun er þó gerð í myndinni til að leita uppruna hins auðfengna lánsfjár. Hvaðan kom allt loftið í bóluna? En þótt Ferguson og félagar telji bóluna hafa verið af hinu illa eru þeir einnig mjög ósáttir við að menn hafi leyft loftinu að leka úr henni. Þá hafi komið í ljós að menn gátu ekki greitt af ofboðslegum lánum og menn misst fyrirtæki sín og heimili, sem sé ekki gott. Þessi þversagnakenndi málflutningur kemur berlega í ljós í hneykslan þeirra yfir því að ýmsum bönkum hafi verið bjargað en um leið er það harðlega gagnrýnt að Lehman Brothers skyldi vera leyft að rúlla með öllum þeim neikvæðu afleiðingum sem það hafði fyrsta kastið.

Líkt og þegar sagt var frá Íslandi í upphafi myndarinnar er það margsinnis gefið í skyn að reglum hafi verið aflétt á árunum fyrir hrun án þess þó að það sé útskýrt nánar hvað við er átt. Eins og Vefþjóðviljinn þreytist ekki á að segja þá er leitun að atvinnugrein sem búið hefur við jafn viðamikið regluverk og eftirlit og fjármálastarfsemi á Vesturlöndum gerði á árunum fyrir lánsfjárkreppuna. En áfram er hrópað á meira af eftirlitnu sem menn segja að hafi brugðist. Þetta er óæt súpa en mættum við fá stærri skammt. En ef að Inside Job tekst að sýna eitthvað með sannfærandi hætti er það hve samkrull ráðuneyta, seðlabanka og fjármálafyrirtækja er mikið í Bandaríkjunum. Og þannig verður það á meðan ríki reka seðlabanka, eru stærstu skuldabréfaútgefendur veraldar, hirða helminginn úr launaumslögum borgaranna og telja sig geta komið í veg fyrir að fjármálafyrirtæki fari sér að voða með því að setja upp eftirlitsstofnanir og sífellt fleiri reglur og láta sem það kosti ekkert að þau séu lánveitandi til þrautarvara.

Það er því við hæfi að í sýnishorni sem framleiðendur dreifa úr Inside Job gefur að líta skelfilegar afleiðingar fjármálakreppunnar í myndum af glæsilegu en tómu skrifstofuhúsnæði í glerturninum við Höfðatún í Reykjavík. Þær hörmungar eru þó skammvinnar því innan tíðar flytur stærra og …. Fjármálaeftirlit einmitt þangað.