Laugardagur 23. apríl 2011

113. tbl. 15. árg.

S kafti Harðarson vekur athygli á því á Eyjunni að Samtök atvinnulífsins veiti fremur neikvæða umsög um tillögu til þingsályktunar um að Ísland leiti eftir fríverslun við Bandaríkin. Skafti furðar sig á þessu og er ekki einn um það. Viðskiptaráð Íslands veitir einnig umsögn um tillöguna og er á báðum áttum um hvort svona fríverslunarbrölt borgi sig. Um þennan málflutning Samtaka atvinnulífsins segir Skafti:

Augljóst er að SA er ekki að berjast hér fyrir hagsmunum neytenda, enda kannski ekki á þeirra könnu. Fjöldi innfluttra vara bera hærri innflutningsgjöld frá Bandaríkjunum en þau gera frá EES löndum og neytendur greiða fyrir með hærra verði, eða því að samkeppnin er minni en ella. Kannski hentar það félagsmönnum SA ágætlega.

En starfsmenn SA hafa ekki hugmynd um hvað möguleikar felast í fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Þeir vita ekki hvaða möguleika það kann að gefa til nýrra tækifæra í inn- og útflutningi og fjárfestingartækifærum, neytendum og fyrirtækjum til hagsbóta. Þeir taka stundarhagsmuni fram yfir hagsmuni framtíðarinnar og eru nú augljóslega þeirrar skoðunar að alþjóðaviðskipti séu ekki endilega Íslendingum til hagsbóta. Öðruvísi mér áður brá.

Skafti gerir því skóna að Samtök atvinnulífsins vilji ekki flækja aðildarviðræður við ESB með hugmyndum um fríverslun við önnur svæði. Í athugasemdum við pistil hans má segja að þessi kenning hans fái nokkra viðurkenningu. Þar raða Evrópusinnarnir sér upp með alls kyns fyrirslátt. Þeir vilja forðast sem heitan eldinn að Íslendingar geti átt viðskipti við önnur lönd en þau sem eru innan ESB.

Og svo er Íslendingum sagt að þeir verði að ganga í ESB til að einangrast ekki.