S tjórnir tveggja félaga vinstrigrænna í norðvesturkjördæmi hafa síðustu daga krafist þess að Ásmundur Einar Daðason segi af sér þingmennsku, eftir að hann var staðinn að því að sýna stefnu vinstrigrænna meiri tryggð en stefnu Samfylkingarinnar. Benda þessar ágætu stjórnir vinstrigrænna á að Ásmundur Einar var kjörinn á þing með atkvæðum sem ætluð voru vinstrigrænum, og þykir þeim ranglátt að þingmaðurinn geti yfirgefið þingflokkinn en setið áfram á þingi.
Jájá. Það væri kannski hægt að hafa samúð með þessum sjónarmiðum vinstrigrænna, og sömu sjónarmiðum sem vinstrigrænir á Suðurlandi settu fram við Atla Gíslason á dögunum, ef vinstrigrænir hefðu ekki tekið því svo ljómandi vel þegar Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, gekk í þingflokk vinstrigrænna. Ætli kjósendur Borgarahreyfingarinnar hafi ætlað sér að kjósa mann til setu í þingflokki eins „fjórflokksins“?
Ef vinstrigrænir ætla að kvarta yfir brottför Atla, Lilju og Ásmundar, þá verða þeir að byrja á því að skila Þráni.