H ún er valkvæð, samúð álitsgjafanna. Árum saman sungu þeir sönginn um flokksræðið. Vondar skepnur, svokallaðir stjórnmálaflokkar, kúguðu frjálshuga menn en lyddur og liðleskjur þyrðu ekki að fylgja eigin sannfæringu. Sérstaklega var þessi söngur sunginn um forystu Sjálfstæðisflokksins, enda var hún álitsgjöfunum afar hugstæð. Menn, sem aldrei hafa starfað í Sjálfstæðisflokknum, létu það ekki hindra sig í að halda margar ræður og skrifa ótal pistla um skoðanakúgunina, þöggunina og flokksræðið þar á bæ.
Þar til seint í vetur, þegar samúð þeirra varð öll með forystu Sjálfstæðisflokksins. Þegar hún kúventi í mikilvægu máli og gekk þar til liðs við vinstristjórnina eignaðist hún á einu andartaki alla samúð álitsgjafanna. Þeir sjálfstæðismenn sem héldu sig einfaldlega við stefnu flokksins voru kallaðir harðlínumenn og ýmsum ljótum uppnefnum. Álitsgjafarnir eru enn þá harmi lostnir yfir þeirri svívirðu að í einu máli sé afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins gagnrýnd innan flokksins. Á alþingi kalla stjórnarsinnar það ofbeldi og ofsóknir gegn honum og láta eins og vantrauststillaga hans á ríkisstjórnina sé komin til vegna þess. Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins fylkti um sig hópi fyrrverandi ráðherra og tveimur fyrrverandi flokksformönnum, fannst álitsgjöfunum það einmitt sýna styrk hennar og einangrun gagnrýnenda hennar.
Þessi skyndilega umhyggja, einmitt þegar forysta Sjálfstæðisflokksins tók U-beygju, segir mikla sögu um álitsgjafana.
Og sama saga er nú endurtekin. Hvaða álitsgjafar hafa tekið ofan fyrir Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að fylgja sannfæringu sinni og segja skilið við forystu eigin flokks? Halda menn að það sé ekkert átak fyrir ungan mann, sem er á sínu fyrsta kjörtímabili, að ganga svo gegn flokksforystunni? Hvernig halda menn að Steingrímur J. Sigfússon taki slíku? Halda menn að forysta Vinstrigrænna fyrirgefi slíkt? Menn geta spurt Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem var sett af sem þingflokksformaður til að refsa Ögmundi Jónassyni fyrir að bera ekki til baka fréttir um að hann hafi greitt atkvæði gegn Icesave. Hinn ungi þingmaður Ásmundur Einar Daðason sér það, en hikar ekki við að brenna allar brýr að baki sér gagnvart eigin forystu til að fylgja eigin sannfæringu.
Fyrir það fær hann hvergi hrós álitsgjafanna, en nóg af upphrópunum, uppnefnum og svívirðingum umræðuvefjanna.
HH vað er að frétta af Bjarna Harðarsyni? Fyrir síðustu þingkosningar gekk hann úr Framsóknarflokknum og í VG. Hann gaf þá skýringu að VG væri flokkurinn sem gæti komið í veg fyrir inngöngu Íslands í ESB. Þar ætti hann heima. Síðan hafa vinstrigrænir unnið ötullega að inngöngu Íslendinga í ESB. Þeir láta ekkert stöðva sig í þeim efnum og láta sér í léttu rúmi liggja þótt nokkrir þingmenn telji sér ekki vært í þingflokki VG vegna málsins. Framsóknarflokkurinn ályktaði hins vegar nýlega að í ESB hefðu Íslendingar ekkert að gera.
Væri mögulegt að fá mat á stöðunni frá Bjarna?