Laugardagur 2. apríl 2011

92. tbl. 15. árg.

Ú lfúðin heldur áfram í hópnum sem kennir sig við Áfram en mikil óánægja braust út meðal áhangenda hópsins með ókindarauglýsingu hópsins fyrr í vikunni. Á Facebook síðu hópsins er einnig óánægja með 20-ráðherraauglýsinguna sem birt er í blöðunum í dag. Í athugasemdum við auglýsinguna kallar Þorkell Sigurlaugsson Áfram-maður að minnsta kosti tvo ráðherranna „óreiðumenn“.  Orðrétt skrifar Þorkell: „Já, við verðum víst að borga skuldir þeirra óreiðumanna sem afhentu bankana til manna sem kunnu ekki með þá að fara.“

Að minnsta kosti tveir ráðherrar í auglýsingunni komu að einkavæðingu bankanna.Valgerður Sverrisdóttir var viðskiptaráðherra við einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Jón Sigurðsson var viðskiptaráðherrann sem seldi Útvegsbankann. Fleiri í auglýsingunni voru ýmist ráðherrar eða þingmenn sem studdu einkavæðingu Útvegsbankans, FBA, Landsbankans og Búnaðarbankans á sínum tíma.

Hvernig ætli Jóni, Valgerði og fleirum úr þessum ráðherrahópi þyki að hafa lánað Áfram-mönnum nafnið sitt og láta þá svo kalla sig „óreiðumenn“?

Þegar Steingrímur J. Sigfússon var kominn með óþægilega spurningu frá fjölmiðli fékk hann nánasta samherja sinn til að spyrja sams konar spurningar á þinginu, og neitar svo að svara fjölmiðlinum því þingið eigi að fá svar fyrst. Þegar svarið kemur inn á dagskrá þingsins, sem sýnir að það er tilbúið, er því einfaldlega kippt út aftur. Og fréttamenn láta eins og þeir sjái ekki neitt.

Æ tli einhver af svokölluðum fréttamönnum landsins hafi hugsun á að fjalla um þetta:

Morgunblaðið sagði frá því í gær, í frétt á blaðsíðu tvö, að síðastliðinn mánudag hefði verið á dagskrá Alþingis sérstakur liður: Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar um kostnað vegna samninganefndar Íslands vegna nýjustu Icesave-samninganna. En þegar til hefði átt að taka hefði liðurinn dottið út af dagskránni og sé núna kominn á dagskrá 11. apríl, sem fyrir tilviljun er fyrsti starfsdagur þingsins eftir Icesave-kosninguna.

Og hér er fleira að segja og fréttnæmara. Það kemur fram í fréttinni að Morgunblaðið hafi hinn 21. febrúar óskað eftir því skriflega að ráðuneytið upplýsti um kostnað vegna starfa nefndarmannanna, þar á meðal launakostnað þeirra. Svo gerist það 24. febrúar, að nánasti samstarfsmaður Steingríms J. Sigfússonar, Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar, leggur fram fyrirspurn á Alþingi um þennan kostnað, og síðan berast engin svör. Fjölmiðillinn fær engin svör og Morgunblaðið segir frá því að nú hafi þær upplýsingar komið frá fjármálaráðuneytinu að „samkvæmt vinnulagi ráðuneytisins væri þingmönnum svarað á undan fjölmiðlum. Engu skipti þótt í þessu tilviki hefði Morgunblaðið sent sína fyrirspurn til ráðuneytisins áður en Björn Valur lagði fram fyrirspurn á Alþingi.“

Þessi framganga Steingríms J. Sigfússonar þarf ekki að koma neinum á óvart, þótt „fréttamenn“ sjái auðvitað ekkert grunsamlegt. Fyrir þremur vikum, 10. mars, sagði Vefþjóðviljinn frá fyrirspurn Björns Vals og þóttist strax skilja hvaða fiskur lægi undir steini í þessum óvænta fróðleiksþorsta þingmannsins: „Annað er mjög athyglisvert. Nýlega var lögð fram fyrirspurn á Alþingi um hver kostnaður hafi verið við störf „samninganefndarinnar“. Fyrirspurninni er beint til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Og hver spyr? Jú, Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar og nánasti bandamaður Steingríms. Ætli það geti verið að tilgangur fyrirspurnarinnar sé, að gera auðveldara að draga fjölmiðla á svörum? Að menn hafi viljað eiga þann möguleika að svara ábúðarmiklir að ráðherrann hafi nú fengið fyrirspurn um málið á Alþingi og vitaskuld verði hinu háa Alþingi svarað á undan fjölmiðlamönnum? Og þannig verði tíminn látinn líða?“

Nú kemur í ljós hvort íslenskir fréttamenn hugsa heila hugsun. Það blasir við að fjármálaráðherra fær nánasta samstarfsmann sinn til að leggja fram fyrirspurn á Alþingi, beinlínis til þess að hindra að upplýsingar komist til landsmanna í tæka tíð fyrir Icesave-kosninguna. Það þarf enginn að ímynda sér að Björn Valur Gíslason spyrji allt í einu um kostnað við Icesave-samninganefndina, um leið og Steingrímur situr uppi með fyrirspurn fjölmiðils. Það er augljóslega verið að nota fyrirspurn á Alþingi til að halda upplýsingum frá landsmönnum, og það er í stíl við margt annað hjá ríkisstjórn gegnsæisins.
Ætli fréttamönnum þyki þetta ekki neitt neitt?

Á fram hópurinn auglýsir í dag 20 fyrrverandi ráðherra til stuðnings Icesave III. Það fer auðvitað ágætlega á því að þeir sem eru á eftirlaunum með ríkisábyrgð styðji ríkisábyrgð á Icesave. Meðal þeirra er Jón Sigurðsson sem er ekki aðeins fyrrverandi ráðherra heldur jafnframt fyrrverandi formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins frá 2007 til 2009. Í maí 2008 hóf Landsbankinn söfnun innlána í Hollandi og Jón Sigurðsson stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins var á sama tíma í viðtali við Moment fréttabréf Landsbankans á ensku til að efla traust manna erlendis á bankanum.

Með A í einkunn frá matsfyrirtækjum og meðmæli Jóns Sigurðssonar hóf Landsbankinn söfnun innlána í Hollandi sumarið 2008. Nú vill Jón að íslenskur almenningur gangist í ábyrgð fyrir tap bankans Í Hollandi.