H eston Blumenthal er eigandi Fat Duck sem er þriggja Michelin-stjörnu veitingastaður í Englandi. Fat Duck var valinn besti veitingastaður í heimi árið 2005. Það eru því talsverðir hagsmunir í húfi þegar Blumenthal leggur nafn sitt við eitthvað. Nú um stundir tekur hann þátt í auglýsingaherferð Waitrose verslunarkeðjunnar sem stofnuð var árið 1904 og rekur 243 verslanir í Englandi, Skotlandi og Wales. Við verslanirnar starfa 37 þúsund manns. Þar eru aldargamalt orðspor og miklir viðskiptahagsmunir í húfi.
En bíðum nú við. Íslendingar eru ekki búnir að samþykkja Icesave. Hvernig getur Ísland verið aðalatriði í auglýsingu á meðan þjóðin hefur ekki samþykkt Icesave? Auglýsingu bresks stórfyrirtækis með breskum meistarakokki af besta veitingahúsi alþjóðasamfélagsins sem beint er til almennings í Bretlandi?
Hér er kannski það að verki sem Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar verslunar nefndi svo réttilega á dögunum: Peningar fara aldrei í fýlu.