Fimmtudagur 24. mars 2011

83. tbl. 15. árg.

E itt sinn efndi vinstrimeirihluti í borgarstjórn til kosningar um hvað gera skyldi við Reykjavíkurflugvöll eftir aldarfjórðung. Mun sú kosning ekki síst hafa verið til þess ætluð að forða vinstriflokkunum sjálfum frá því að taka ákvörðun í því máli á eigin ábyrgð. Kosningin varð að engu, þegar þátttaka í henni varð mun minni en gert hafði verið ráð fyrir og niðurstaðan varð ekki bindandi. Sumir létu þó eins og mikill atburður hefði orðið, og stóryrtur stjórnarandstöðuþingmaður, Össur Skarphéðinsson, skrifaði blaðagrein þar sem hann sagði kosninguna hafa verið dæmi um lýðræðisþróun og velheppnaða kosningu með „beinum og rafrænum hætti“.

Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, sérdeilis glöggur maður og þar á ofan ákaflega kosningafróður, svaraði Össuri að bragði, rakti hvílíkur skrípaleikur kosningin hafði verið, og sagði að Össur hefði í dæmisvali sínu verið „eins og oft áður jafn seinheppinn og Andrés Önd“. Engin þörf væri á breytingum á kosningaframkvæmd á Íslandi enda hefði hún jafnan verið hnökralaus og þær „kosningar einar hafa verið ógiltar á Íslandi í seinni tíð, sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi ráðherra, lét halda með ólögmætum hætti“.

Á þessum tíma hafði það nefnilega aðeins gerst einu sinni að ógilda þurfti kosningu, vegna þess hvernig hún fór fram. Það var kosning sem haldin var til að knýja fram eitt af baráttumálum Jóhönnu Sigurðardóttur, sem iðulega fær einhver mál á heilann svo allt verður fyrir þeim að víkja.

Og á dögunum gerðist það aftur að nauðsynlegt reyndist að ógilda kosningu á Íslandi. Og hvert mannsbarn veit hvaða kosning það var og hvaða ráðherra það var, sem nú var aftur kominn til valda, og knúði nýtt baráttumál sitt út í mýri.

Nú er þessi ráðherra hins vegar orðinn æðsti ráðherra landsins og þá lætur hún sig engu skipta hvað lög segja eða hvað dómstólar segja. Það er bara böðlast áfram í mýrinni. Ógild kosningin skal notuð eins og ekkert sé, því ráðherrann skilur ekki hvað felst í því að kosning hafi verið ógilt.

Og í dag ætla þingmenn að elta hana út í mýrina. Vesaldómur Alþingis fær stöðugt á sig nýjar myndir.