Þriðjudagur 1. mars 2011

60. tbl. 15. árg.

S umir klikka aldrei.

Hinn 23. febrúar 2011 sendi matsfyrirtækið Moody‘s frá sér tilkynningu þess efnis, að ef íslenska ríkið tæki ekki á sig Icesave-skuldir Landsbankans, þá myndi fyrirtækið lækka lánshæfismat landsins niður í þann flokk sem fréttamenn kalla „ruslflokk“. Fréttamenn slá þessu upp sem stórtíðindum og skelfingarskjálfti fer um marga: Við verðum að auka skuldirnar strax, svo lánshæfismatið verði ekki lækkað.

Moody’s gaf Landsbankanum toppeinkunnina Aaa skömmu eftir að bankinn hóf að safna innlánum á Icesave. Hve margir sparifjáreigendur létu blekkjast af þessum fagurgala Moody’s? Nú vill Moody’s að íslenskir skattgreiðendur beri alla ábyrgð á Icesave málinu. Íslenskir skattgreiðendur ráðlögðu þó engum að leggja fé inn í Landsbankann.

Hinn 23. febrúar 2007 sendi matsfyrirtækið Moody‘s frá sér tilkynningu þess efnis, að það gæfi íslensku bönkunum nú hæstu mögulegu einkunn. Þessu var slegið upp sem stórtíðindum og ánægjuskjálfti fór um menn: Bankarnir eru greinilega alveg með þetta. Hæsta mögulega einkunn, takk fyrir.

Haustið 2008 fóru íslensku bankarnir, nýbúnir að fá þetta líka fína mat frá „sérfræðingum Moody‘s“, beint á höfuðið. Skuldir þeirra nema þúsundum milljarða króna. Nú koma „sérfræðingar Moody‘s“ aftur og hvetja íslenska ríkið til að taka á sig tuga eða hundraða milljarða króna skuldir, sem það ber enga ábyrgð á. Sérfræðingarnir segjast munu lækka lánshæfismatið, ef landið eykur ekki skuldirnar! Sú staðreynd hringir engum bjöllum hjá fréttamönnum, sem taka öllu fegins hendi sem gæti hrætt fólk til að samþykkja Icesave-ánauðina.

Einhver fréttamaður hefði nú farið yfir fyrri einkunnagjöf matsfyrirtækjanna og hversu mikið vit hefði verið í henni. Vefþjóðviljinn lætur sér nægja að minna á, að Icesave-kröfurnar, sem Moody‘s vill endilega að íslenskir skattgreiðendur borgi, eru komnar til af því að fólk úti í heimi lagði fé sitt inn í banka, sem það þekkti líklega hvorki haus né sporð á, en Moody‘s gaf hæstu einkunn – skömmu áður en hann fór í þrot, algjörlega yfirskuldsettur.

I ngibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra sá sig nýlega knúna til að leiðrétta rangfærslur stuðningsmanna Icesave-ánauðarinnar um að íslensk stjórnvöld hefðu lofað að greiða Icesave reikninginn haustið 2008.

Eðlilega eru menn – viljandi og óviljandi – búnir að gleyma ýmsu frá haustdögum 2008. Til dæmis þessu símtali frá 7. október 2008:

[…]
Darling: Do I understand that you guarantee the deposits of Icelandic depositors?
Mathiesen: Yes, we guarantee the deposits in the banks and branches here in Iceland.
Darling: But not the branches outside Iceland?
Mathiesen: No, not outside of what was already in the letter that we sent.
Darling: But is that not in breach of the EEA Treaty?
Mathiesen: No, we don’t think so and think this is actually in line with what other countries have been doing over recent days.
[…]

Hvers vegna er Darling ósáttur við það sem Árni segir? Er það af því að Árni er að lofa honum að Íslendingar greiði allt sem Bretum dettur í hug? Nei, auðvitað ekki. Og næstu daga hótuðu Bretar Íslendingum öllu illu og gripu til ýmissa óyndisúrræða gegn íslenskum hagsmunum. Halda menn að það hafi verið vegna þess að Íslendingar lofuðu að borga allt?