Þriðjudagur 1. febrúar 2011

32. tbl. 15. árg.

Þ að er ekki gott að fara á taugum. Slíkt getur þó hent, en þá ættu menn að forðast allar örlagaríkar ákvarðanir eins og þeir mögulega geta.

Í ársbyrjun 2009 var enginn skortur á stjórnmálamönnum sem farið höfðu á taugum. Undir taktföstum slætti Ríkisútvarpsins var efnt til endurtekinna mótmæla sem þróuðust í óeirðir. Fréttaflutningur af helstu málum varð hlutdrægari og hlutdrægari. Opinberlega var sífellt dregin upp villandi og ósanngjörn mynd af ástandi og mála og orsökum ástandsins, og undir þessu brustu margir.

Við bættist skoðanakönnun sem fyllti framsóknarmenn skelfingu og innan forystu þeirra var enginn reynslumikill maður eftir. Allir sáu að Sjálfstæðisflokkurinn sat undir miklum barsmíðum, sem hann virtist ekki reyna að verjast svo nokkru næmi. Við þær aðstæður stukku framsóknarmenn til, í þeirri trú að þeir sem stæðu lengst frá Sjálfstæðisflokknum kæmust þar með sjálfir í skjól fyrir stormum umræðunnar. Framsóknarmenn buðust til að verja vinstristjórn vantrausti og gerðu ekki kröfur um neitt sem máli skipti í staðinn. Vinstriflokkarnir, sem árum saman höfðu, að sögn af umhyggju fyrir Framsóknarflokknum, hvatt hann til að vera ekki „hækja annarra“, gripu tækifærið. Ólafur Ragnar Grímsson fór gegn stjórnskipunarvenjum og tillögu sitjandi forsætisráðherra og myndaði minnihlutastjórn án þess að reyna fyrst að mynda meirihlutastjórn. Fjölmiðlar glöddust og við tók minnihlutastjórn vinstriflokkanna með húsnæðismálaráðherrann úr fyrri stjórn sem forsætisráðherra. Svo var efnt til kosninga, þegar fæstir höfðu enn fengið ráðrúm til að átta sig. Úr þeim komu kosningaúrslit sem aldrei áður höfðu sést á Íslandi. Á grundvelli þeirra telja vinstriflokkarnir sig hafa umboð til að sitja í fjögur ár og fara um með báli og brandi.

Nú eru liðin tvö ár frá því vinstriflokkarnir náðu völdum. Þau hafa nýst Íslandi ákaflega illa. Ríkisstjórnin hefur þvælst fyrir en ekki hjálpað til. Án hennar hefði landið mun fyrr tekið að rétta úr kútnum. Ráð ríkisstjórnarinnar eru skattahækkanir og höft, hún þvælist fyrir uppbyggingu atvinnu og hún þvælist fyrir sérhverri nýtingu auðlinda landsins sem munað gæti um. Þegar sjávarútvegurinn heldur þjóðarbúinu gangandi þá leggur ríkisstjórnin til atlögu við hann. Það er orgað á þá sem vilja andæfa árásum á höfuðatvinnuveg landsins þegar efnahagurinn hangir á bláþræði. Þegar miklu myndi skipta að efla samstöðu landsmanna lætur ríkisstjórnin landið sækja um inngöngu í erlent ríkjabandalag, þó að meirihluti landsmanna vilji ekki fara þangað. Það er gengið um þinghúsið og öskrað á stjórnarþingmenn fyrir mikilvægar atkvæðagreiðslur um þetta hugðarefni annars stjórnarflokksins. Þegar miklu skiptir að landið taki ekki á sig of miklar erlendar skuldir reynir ríkisstjórnin allt sem hún getur til að leggja hundruð milljarða kröfur, í erlendum gjaldeyri, á landsmenn, án nokkurrar skyldu til að gera slíkt. Þegar efnt er til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið reyna forystumenn stjórnarflokkanna eins og þeir geta að draga úr kjörsókn. Í staðinn fyrir að vinna að sáttum og friði í landinu skapar ríkisstjórnin tortryggni í hverju skrefi. Alþingi er látið ákæra Geir Haarde en Samfylkingarráðherrar sleppa ekki aðeins heldur eru þeir hækkaðir í tign. Þegar miklu skiptir að standa vörð um grunnstoðir þjóðfélagsins ræðst ríkisstjórnin á stjórnarskrána. Í einu orðinu segist ríkisstjórnin hafa áhyggjur af því að Alþingi njóti ekki nægilegs trausts. Í næsta orði er efnt til stjórnlagaþings því að Alþingi sé ekki treystandi til þess að breyta stjórnarskránni eins og ríkisstjórnin vilji. Í þriðja orðinu er orgað á stjórnarandstöðuna þegar í ljós kom að stjórnvöld réðu ekki við að halda kosningu til stjórnlagaþingsins sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur þó á heilanum. Tveir þriðju landsmanna hunsuðu kosninguna sem stjórnvöld efndu til. Ríkisstjórninni dettur ekki í hug að taka mark á þeim skilaboðum.

Ríkisstjórnin reynir að kenna einkavæðingu, áratug fyrir bankaþrot, um gjaldþrot bankanna. Sú einkavæðing hefur þó verið rannsökuð vandlega. Sjálf einkavæddi ríkisstjórnin tvo banka í hendur aðila sem enginn veit hverjir eru, en skilanefndir og slitastjórnir fara nú um í skjóli stjórnvalda og deila og drottna í viðskiptalífinu. Ríkisstjórnin talaði langt mál um gagnsæi en hefur sjálf lokað á allt. Ábúðarmiklir embættismenn mæta fyrir þingnefndir og segjast bundnir trúnaði um allt. Stjórnarþingmenn fara svo í blöðin og segja fundina hafa verið afar fróðlega, því þar hafi þingmenn verið fræddir um að þeir megi ekkert vita.

Þetta er nú meðal þess sem tvö ár af vinstristjórn hafa fært landsmönnum. Enn eru meira en tvö ár eftir af kjörtímabilinu. Það er skemmtileg tilhugsun.