Mánudagur 17. janúar 2011

17. tbl. 15. árg.

A

Ráðherra ætlar að senda „stjórnlagaþingi“ brýningar. Öllum er sama, enda vita allir að stjórnlagaþingið var eyðilagt með skrípakosningunni í nóvember.

llir vita hvílík óeining er innan ríkisstjórnarliðsins. Samfylkingin knýr mál sín áfram af fullkomnu tillitsleysi gagnvart „samstarfsflokknum“, sem býr við þá stöðu að forysta hans og meginþorri þingflokksins lætur sig það vel líka, en aðrir flokksmenn eru sárir og reiðir. Til að fá stjórnarliða til að sameinast um eitthvað sem þeir eiga sameiginlegt, var þess vegna efnt til sameiginlegs félagsfundar Samfylkingar og vinstrigrænna í Reykjavík og annað tveggja sameiginlegra áhugamála flokkanna tekið til umræðu: Rústun sjávarútvegsins.

Á fundinum var tilkynnt, og sagt frá því örstutt í fréttum, að sjávarútvegsráðherra hefði ákveðið að skrifa yfirvofandi „stjórnlagaþingi“ bréf, til að fara fram á að þingið fylgdi eftir stefnu ríkisstjórnarflokkanna í sjávarútvegs- og auðlindamálum.

Viðbrögðin við þessu segja mikla sögu um „stjórnlagaþingið“, úr því sem orðið er. Hver voru viðbrögðin? Þau voru engin.

Menn ættu að ímynda að sér að gagnstætt bréf hefði verið skrifað eða til raunverulegs stjórnlagaþings. Að ráðherra – eða einhver annar – hefði skrifað slíku stjórnlagaþingi og farið fram á að sjávarútvegurinn yrði ekki lagður í rúst með öfgastefnu vinstrimanna, eins og auðvitað stendur til á stjórnlagaþinginu. Þá hefðu menn gengið af göflunum, ekki síst væntanlegir þingfulltrúar. Þá hefðu verið uppi stór orð um að verið væri að „segja stjórnlagaþinginu fyrir verkum“, „reyna að hafa áhrif á þingfulltrúa“ og aðrir frasar í sömu átt.

En nú segir enginn neitt – enda vita allir hvers konar samkoma þetta stjórnlagaþing er. Á því hefur enginn áhuga nema ákveðinn hópur og sá hópur sér ekkert athugavert við bréfasendingar Jóns Bjarnasonar. „Stjórnlagaþingið“ var knúið í gegn með æsingi og einsýni á þingi, yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hunsaði kosningu til þess, yfirgnæfandi meirihluti landsmanna telur, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, að peningum til þingsins sé illa varið, og allir venjulegir menn átta sig á kosning til þingsins var á skjön við reglur um leynilegar kosningar. Á þingið ætlar svo að setjast maður sem vafi leikur á að hafi verið kjörgengur í kosningunni enda var hann þá eins og nú varamaður vinstri grænna á Alþingi.

Það er eiginlega ekki umdeilanlegt, að kosningin til stjórnlagaþingsins var fjarri því að vera eins og lög áskilja. Með þeirri aðferð sem notið var við kosninguna í nóvember, var stjórnlagaþingið slegið af.