Helgarsprokið 16. janúar 2011

16. tbl. 15. árg.

Í lok síðustu aðventu bættist í Bóksölu Andríkis ein allra áhugaverðasta bók þess árs, bók sem ekki mun hverfa með jólabókafjöldanum sem yfirleitt fennir hratt yfir. Í bókinni Sovét-Ísland óskalandið opnar prófessor Þór Whitehead augu manna fyrir því um hvað var barist í íslenskum stjórnmálum drjúgan hluta tuttugustu aldar – þó að sumir haldi að íslensk stjórnmál hafi þá aðeins verið reiptog nokkurra spilltra karla sem hafi tekist á um bitlinga.

Tveir ólíkir menn hafa nýlega fjallað opinberlega um bók Þórs, annar þeirra starfaði lengi innan vinstrihreyfingarinnar en hinn ritstýrði Morgunblaðinu bæði þegar það barðist djarflega gegn kommúnisma og þegar það talaði fyrir femínisma af heldur minni skynsemi.

Í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins segir Styrmir GunnarssonSovét-Ísland sé grundvallarrit sem breyti „sýn okkar á stjórnmálaþróun 20. aldarinnar á Íslandi. Með gífurlegri gagnasöfnun, sennilega í áratugi, og viðamikilli úrvinnslu heimilda [sýni Þór Whitehead] fram á með sterkum og nánast óyggjandi rökum að Kommúnistaflokki Íslands og síðar Sameiningarflokki Alþýðu – Sósíalistaflokknum og þeim hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem þessir aðilar réðu fyrir, var í áratugi stýrt með beinum hætti frá Moskvu.“

Og Styrmir bætir við:

Jafnvel þeir, sem hafa fylgzt með þjóðmálabaráttunni á Íslandi í meira en hálfa öld, kynnst helztu þátttakendum í öllum flokkum í þeirri baráttu og átt samtöl við þá um liðna tíð standa agndofa eftir lestur þessarar bókar. Sögukennsla í skólum hefur ekki gefið rétta mynd af því, sem hér gerðist fyrir lýðveldisstofnun og á fyrstu árum hins unga lýðveldis. Eitt af því, sem hlýtur að gerast eftir útkomu bókar Þórs Whitehead er að sú sögukennsla verði endurskoðuð. Verði það ekki gert er verið að gefa nýjum kynslóðum Íslendinga ranga mynd af sögu þjóðar sinnar.

Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur skrifaði nýlega ýtarlegan pistil um bók Þórs á vef sinn. Gunnlaugur segir meðal annars:

Ég hef lagt á það dálitla áherslu á liðnum misserum að lesa bækur um sögu kommúnismans, bækur um Stalín, Maó og fleiri framámenn á þessu sviði til að geta betur gert mér grein fyrir því sem fór í raun fram. Sú mynd sem þau Pótemkímtjöld sem stillt var upp um kommúnismann gegnum áratugina er afar ólík raunveruleikanum þegar betur er að gáð. Mér finnst þvi það vera ómaksins virði að kynna mér hlutina betur. Ástæða þess er meðal annars sú að ég var meðlimur í Alþýðubandalaginu frá árinu 1975 og hélt síðan áfram í Vinstri Grænum eftir að sá flokkur var stofnaðir. Leiðir skIldu hinsvegar að fullu fyrir um 10 árum síðan. Alþýðubandalagið var arftaki Sósíalistaflokksins sem aftur á móti var arftaki Kommúnistaflokksins. Mér finnst vera full ástæða til að gera þennan tíma upp því tíminn hefur leitt í ljós að ýmsilegt hefur reynst hafa verið á annan veg en af var látið. Kommúnisminn gaf sig út fyrir að hafa hagsmuni almennings og verkafólks sem sitt leiðarljós en sagan sýnir að ekkert var fjarri sanni. Í nafni hans hafa verið framin svo hryllileg grimmdarverk og óskapleg kúgun að nasisminn bliknar í þeim samanburði og skal þó ekkert dregið úr þeim ógnarverkum sem framin voru í nafni hans. […]

Í Gúttóslagnum var lögreglan í Reykjavík barin í klessu. Margir lögreglumanna voru stórslasaðir þannig að þeir biðu þess aldrei bætur. Ríki sem getur ekki haldið uppi lögum og reglu er í raun og veru ekkert ríki. Því hékk tilvera íslenska ríkisins í raun á bláþræði á þessum tíma.
Um Gúttóslaginn var alltaf talað þannig eins og þar hefðu hungraðir verkamenn verið að berjast fyrir tilveru sinni og framfærslu. Samkvæmt bókinni Sovét Ísland er það mjög röng mynd. Í raun var Gúttóslagurinn manndómsraun harðsvíraðs kjarna byltingarsinna sem höfðu verið þjálfaðir í byltingarskóla hjá kommúnistum í Moskvu. Það er allt annar hlutur en að slást fyrir mat. Fleiri átök af svipuðum toga sem áttu sér stað á þessum tíma eru tilgreind í bókinni. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í miklum samskiptum við Komintern (Kommúnistisku alþjóðasamtökin) í Moskvu og fengu þaðan fyrirmæli og ráðgjöf. Það má segja ef rétt er með farið í bókinni að það hafi verið styttra í en ætla mætti í fljótu bragði að kommúnistar næðu undirtökum í samfélaginu hér með valdbeitingu en ætlað hefur verið til þessa. Nærtækast er að líta til Eystarasaltsríkjanna um hvernig mál hefðu skipast hérlendis ef sú hefði orðið raunin.

Við lestur bókarinnar fékk ég smátt og smátt tilfinningu fyrir að það er eitt og annað líkt í umræðunni í dag og umræðunni eins og hún var á árunum í kringum 1930 þegar komúnisminn fór að skjóta rótum fyrir alvöru.

Í þeim tíma var samfélaginu skipt upp í „burgeisa“ og „verkalýð“. Burgeisar voru birtingarmynd yfirstéttarinnar sem verkalýðurinn átti undir högg að sækja gegn. Þetta minnir mig á umræðuna um karla og konur á liðnum árum. Svokölluð kvenfrelsisumræða er hátt skrifuð hjá mörgum evrópskum vinstri flokkum sem áður hölluðust að kommúnisma. Karlahatur er algengt hjá öfgafullum feministum. Körlum nútimans er kennt um allt það sem ýmsum konum finnst hafa sér verið misgert í gegnum aldirnar. Afar vinsælt er hjá mörgum að gera lítið úr körlum.
Sjálfseignarbændur (kúlakar) voru ofsóttir í Sovétríkjunum. Ástæða þessar að þeir voru taldir hafa verið í uppreisn gagnvart samyrkjuvæðingunni,spekúlerað með korn og selt það öðrum en ríkinu eftir að þeir voru neyddir til að setjast á “samvinnubú”. Þetta minnir mig ögn á umræðuna um sjárvarútveginn hérlendis. Grimmur áróður dynur á þeim reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hamrað er á nauðsyn þess að koma auðlindum (les: kvóta í sjávarútvegi) í eigu þjóðarinnar hvað sem það nú þýðir. Þeir sem enn starfa við sjávarútveg eru látnir gjalda þess af einhverjir eru ósáttir við þá sem seldu sig út úr greininni. Hamrað er á að allur kvóti sé gjafakvóti þrátt fyrir að um 90% þess kvóta sem er notaður í dag hafi verið keyptur.
Lögreglan sem hefur það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í landinu var kölluð „meindýr“, „blóðhundar auðvaldsins“, „óðir hundar fasismans“, „sníkjudýr“ og „rakkar“. Þannig var alið á hatri og fordómum á lögreglunni með markvissum áróðri sem átti að gera það léttbærara að lúskra á henni ef tækifæri byðist. Þetta minnir mig dálítið á þann fréttaflutning og umræðu um lögregluna hérlendis sem hefur verið til staðar hérlendis á undanförnum misserum þrátt fyrir að orðavalið hafi verið heldur siðaðra en á tímum kommúnistaflokksins. Hún er sökuð um hrottaskap, ofbeldi, misbeitingu valds og ég veit ekki hvað við minnstu og óverulegustu tilefni. Fréttamenn fjölmiðla hafa ekki verið barnanna bestir í þeim efnum. Rétt er að rifja upp þegar einn náunginn nuddaði sér upp við lögregluþjón og pirraði hann þar til lögreglan ýtti við honum svo náunginn sté eitt skref aftur af gangstétt. Annar lá í leyni og tók mynd af öllu sem síðan var spiluð aftur og aftur í sjónvarpsfréttum sem dæmi um hrottaskap lögreglunnar.

Enginn þeirra sem sannanlega tók þátt í því að limlesta lögreglumenn í Gúttóslagnum árið 1932 eða aðra borgara afplánaði dóm fyrir brot sín þrátt fyrir dóma hæstaréttar. Stjórnvöld virtust ekki hafa þorað að setja þá bak við lás og slá því allir voru náðaðir. Þetta minnir á málsmeðferðina á skrílnum sem réðst inn í Alþingi í byrjun árs 2009. Í fyrsta lagi hefur ítrekað verið reynt að hleypa upp réttarhöldum og koma þannig í vegn fyrir eðlilegan framgang réttvísinnar. Í öðru lagi hafa níumenningarnir og stuðningsmenn þeirra ítrekað reynt að fá ákveðna stjórnmálamenn til að misbeita áhrifum sínum og grípa inn í eðlilegan feril dómstóla. Sama viðhorf virðist vera til staðar hjá þeim og kommúnistum fyrri tíma að þeir telja sig hafna yfir lög og rétt við ákveðnar aðstæður og gera í raun það sem þeim sýnist. […]

Bókin Sovét Ísland Óskalandið er mjög fróðleg og ástæða til að hvetja áhugafólk um sögu að lesa hana því menn geta rétt ímyndað sér hver framvinda mála hefði orðið hérlendis ef kommúnistar hefðu náð hér völdum. Það er hverjum manni hollt því næg eru fordæmin.

Það má taka undir flest sem þessir ólíku lesendur bókarinnar skrifa. Sovét-Ísland óskalandið er grundvallarrit sem allir íslenskir áhugamenn um þjóðmál ættu að eignast, lesa og kynna fyrir öðrum. Bókin fæst í Bóksölu Andríkis.