Líkt og Vefþjóðviljinn hefur svo oft sagt þá er Icesave-deilan ekki reikningsdæmi heldur spurning um rétt og rangt. Íslensk stjórnvöld hafa með neyðarlögunum bætt innstæður Breta og Hollendinga langt umfram það sem þeim bar nokkur skylda til að gera. Án neyðarlaganna hefðu Bretar og Hollendingar fengið lítið brot af því sem þeir greiddu sparifjáreigendum sínum. Neyðarlögin færa þeim nokkur hundruð milljarða króna úr þrotabúi Landsbankans sem þeir hefðu ella ekki fengið.
Það er vert að hafa í huga að í raun vilja Bretar og Hollendingar njóta þrefaldrar tryggingar:
Í fyrsta lagi nutu þeir trygginga hjá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Allir gátu kynnt sér hversu burðugur sá sjóður var.
Í öðru lagi færðu neyðarlögin innstæðueigendum mjög aukinn rétt við uppgjör á þrotabúi Landsbankans, á kostnað annarra kröfuhafa. Við þann skuggalega verknað var ríkissjóður Íslands settur í stórhættu. Í þriðja lagi vilja svo Bretar og Hollendingar að íslenskir skattgreiðendur taki ábyrgð á öllum kostnaði sem ekki fæst bættur með tryggingunum hér að ofan við þá ákvörðun þeirra sjálfra að greiða í óðagoti sparifjáreigendum bætur strax haustið 2008. |
En fjárlaganefnd Alþingis heldur áfram að reikna og hefur af skiljanlegum ástæðum fengið aðstoð við það verk því margir þættir hafa áhrif á hvað íslenskir skattgreiðendur þyrftu að punga út ef nýjasta útgáfan af kröfum Breta og Hollendinga yrði samþykkt.
Meðal þeirra sem reiknað hafa fyrir fjárlaganefnd er fjármálafyrirtækið Gamma. Það setur upp fjórar sviðmyndir af því sem gæti gerst á næstu árum. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan getur ýmislegt gerst sem hefur mjög mikil áhrif á þeir byrðar sem íslenskir skattgreiðendur gætu þurft að axla.
Enginn þessara mynda er glæsileg. Allt væru þetta veruleg áföll fyrir ríkissjóð Íslands. Þótt núverandi fjármálaráðherra hendi tugum milljóna króna út og suður til að fjármagna gjaldþrota tónlistarhallir, tryggingafélög, sparisjóði eru 26 milljarða króna miklir peningar. Ekki síst þegar taka þarf þá að láni eins og nú um stundir. En sviðsmynd 4 er hrein skelfing fyrir íslenska skattgreiðendur. Gengi hún eftir myndi það samsvara því að hneppa 30.000 Íslendinga á vinnumarkaði í þrældóm næstu 10 árin. Tekjuskattur af þessum hópi færi allur í fjárhirslur Breta og Hollendinga.