Fimmtudagur 28. október 2010

301. tbl. 14. árg.

H ér hefur stundum verið kveinað undan því að íslenska ríkið – og ríki almennt – gefi út gjaldmiðil. Nú til dags vísa þessir ríkisgjaldmiðlar ekki á nokkurn skapaðan hlut. Þeir eru hreint blöff, sýndarveruleiki. Ríkið lætur ekki heldur þar við sitja því það ákveður hvert leiguverð á þessum gjaldmiðlum skuli vera. Nýlega stofnaði ríkið sérstaka verðlagsnefnd fjármagns í þessum tilgangi. Reynslan af öðrum verðlagsnefndum ríkisins hefur þótt gefa góð fyrirheit. Þar koma nokkrir spekingar saman og þykjast ekki aðeins sjá hvað er að gerast í efnahagslífi landsmanna heldur einnig hvað landsmenn hyggist almennt fyrir. Svo fæðist tala sem er yfirleitt sama tala og síðast eða þar um bil, stýrivextir. Eina huggunin er að fyrir þetta spákonustarf er greitt í gjaldmiðlinum sem ríkið gefur út. Það er viðeigandi refsing.

Það er vissulega harðsótt erindi hjá Vefþjóðviljanum að sannfæra fólk um að ríkið eigi ekki að koma nálægt útgáfu gjaldmiðla. Jafnvel þótt menn standi í miðjum rústum hinnar ríkisreknu peningastefnu vítt og breitt um Vesturlönd hvarflar vart annað að mönnum en að fara beina leið úr öskunni í næsta eld. Þetta erindi þykir næstum eins fjarstæðukennt og erindi Vefþjóðviljans varðandi DDT um árið. Almennt virðist fólk ekki sjá það fyrir sér að aðrir en ríkisvaldið geti gefið út gjaldmiðil. Það er jafn óhugsandi og að leyfa heimsfrægt eitur.

Það er því nokkur fengur að dæmum sem geta kannski fengið fólk til að íhuga málið, hið minnsta.

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að frumgerðir íslenskra peningaseðla fyrir seðlaútgáfu Landsbanka Íslands árin 1957 og 1958 verði settar á uppboð í Danmörku um aðra helgi. Um tillögur að seðlum er að ræða á verðbilinu 10 til 5.000 krónur, sem teiknaðar voru á sínum tíma af fyrirtækinu Thomas de la Rue. Sömu frumgerðir voru á uppboði hjá uppboðsfyrirtækinu Spinks í London fyrir réttu ári og þá var ásett verð að jafnaði um 3.500 pund, eða um 620 þúsund krónur á núvirði. Morgunblaðið hefur eftir uppboðshöldurum að líklega fáist enn meira fyrir frumgerðirnar nú en fyrir ári.

Hér er því um að ræða seðla sem var aldrei prentað eftir. Þeir voru aldrei gefnir út af Seðlabanka Íslands. Þessir seðlar hafa margfaldað verðgildi sitt. Hins vegar hafa seðlarnir sem bankinn setti í umferð 1958 tapað 99,9% af verðgildi sínu. Alvöru peningarnir reyndust rusl á meðan skissur að seðlum reyndust gulls ígildi.

Það hefði með öðrum orðum verið mjög góður leikur að fara niður í Seðlabanka árið 1958 og kaupa þessa ógildu seðla fyrir þúsundfalda upphæð þeirra í hinum gildu seðlum bankans.

Það hefði jafnvel ekki verið hægt að saka kaupandann um þann skelfilega glæp „að taka stöðu gegn krónunni“.