F jármálafyrirtæki virðast þeirrar skoðunar að breytingar þær sem ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir Alþingi að gera á lögum um gjaldþrot muni gerbreyta lánveitingum til húsnæðiskaupa. Þannig segir greiningardeild Arionbanka um þetta mál.
Þegar til lengri tíma er litið munu þessi nýju gjaldþrotalög gerbreyta lánveitingum fjármálastofnana hérlendis þar sem gerð verður mun meiri krafa um eigið fé. Lánamarkaðurinn færist þá aftur til þess sem var fyrir einkavæðingu bankanna – og raunar mun lengra aftur þar sem lán með öðrum veðrétti hverfa úr sögunni og mjög erfitt verður að tryggja viðbótarfjármögnun. |
Svarið sem heyrst hefur við þessu er einkum þessi spurning: Já er það ekki bara gott að fólk þurfi að safna talsverðu fé áður en það kaupir íbúð? Svarið við henni er að í þessum efnum er engin ein rétt leið fyrir alla. Það er ekki gott að lagabreytingar girði fyrir að lánað sé fyrir til dæmis 90% af kaupverði. Það hentar sumum bara alls ekki að binda fé sitt í fasteignum og ætti raunar ekki að hvarfla að fólki að setja allt sitt sparifé í fasteign frekar en hvað annað.
En það má vera að ljóst að með þessum lagabreytingum yrði fólki auðveldað að fara gjaldþrotaleiðina, eins og það er kallað. Ef það leiðir til þess að fasteignir hrúgast inn á markaðinn má gera ráð fyrir meiri verðlækkun en ella hefði orðið.
Þá eru stjórnvöld í þeirri skemmtilegu stöðu að:
- Starfrækja Íbúðalánasjóð til að gera fólki mögulegt að kaupa íbúð á viðráðanlegum kjörum.
- Starfrækja Íbúðalánasjóð og Landsbankann sem lúra á mörg hundruð íbúðum til að halda fasteignaverði uppi.
- Segjast þó vilja lækka skuldir með almennum hætti sem myndi gerast með lækkandi fasteignaverði .
- Ætla að breyta lögum um gjaldþrot sem að mun líklega fella verð á fasteignum.
Hvernig kæmust menn heim til sín á kvöldin án afskiptasamra stjórnvalda?