E f Vefþjóðviljinn ætti að gefa Sjálfstæðisflokknum ráð myndi hann leggja til stórsókn inn á miðjuna, jafnvel yfir hana og út á vinstri kantinn. Er Vefþjóðviljinn þá endanlega búinn að tapa vitglórunni? Orðinn samdauna nýja Íslandi, gegnsær og uppi á borðum?
Nei, Vefþjóðviljinn telur einfaldlega sem fyrr að hægristefna geti átt erindi við landsmenn alla.
Það er hins vegar fráleitt að taka upp stefnumál og starfshætti vinstri flokkanna til að höfða til stuðningsmanna þeirra, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins leggur til í grein í Morgunblaðinu í dag. Þorgerður Katrín notar að sjálfsögðu ekki þessi orð heldur kallar það “hina víðu skírskotun Sjálfstæðisflokksins”. Hennar ær og kýr virðast að flokkurinn hljóti mikið fylgi, ekki að hugsjónir hans nái til fólks eða fái brautargengi.
Þorgerður Katrín nefnir slagorðið “stétt með stétt” sem dæmi um hina víðu skírskotun Sjálfstæðisflokksins. Þetta er þó einhver misskilningur. “Stétt með stétt” vísar ekki í að flokkurinn taki upp hvaða stefnu sem er til að þóknast ákveðnum stéttum. Það felur þvert á móti í sér að stefna hans, einstaklingsfrelsið, sé fyrir alla.
Stjórnmálaflokkur eru enginn tilgangur. Flokkar eru í flestum tilfellum stofnaðir af fólki sem á sér sameiginlegar hugsjónir og vill eiga tæki eða vettvang til að vinna að þeim. Þannig tæki eru stjórnmálaflokkar. Endanlegur árangur þeirra er ekki mældur í fylgi í kosningum heldur hvernig þeir halda á málum stjórn og stjórnarandstöðu.
Þorgerður Katrín er með grein sinni að svara grein Ívars Páls Jónssonar sem birtist í sama blaði í gær. Þar segir Ívar Páll frá því að Þorgerður hafi hælt sér af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aukið ríkisútgjöld til ýmissa málaflokka þegar hann sat í stjórn og hún sjálf í ráðherrastól. Þetta gerði hún í sjónvarpsþætti Svavars Gestssonar á ÍNN.
Vegna of mikilla útgjalda er ríkissjóður gríðarlega skuldsettur, eiginlega ógjaldfær. Að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli vera stoltur af þætti sínum í því gera ríkissjóðinn gjaldþrota er sérstakt.