Laugardagur 23. október 2010

296. tbl. 14. árg.

R eykjavíkurborg og fyrirtæki hennar þurfa nú að spara og spara. Allt skal skorið niður nema það nauðsynlegasta. Í samstarfssamningi vinstrimeirihlutans í borgarstjórn segir að verja skuli störf borgarstarfsmanna, en slík nauðsyn er á niðurskurði að aðeins nokkrum mánuðum síðar segir Orkuveitan upp mörgum tugum starfsmanna, þar af fólki á sjötugsaldri með áratugastarfsreynslu. Tillögum minnihluta um sparnað án fjöldauppsagna var hafnað. Niðurskurðurinn er því óhjákvæmilegur.

En á einum stað ríkir annar veruleiki, ósnortinn af öllu sem gerist í landinu. Meirihlutinn í borgarstjórn ætlar að auka straum skattpeninga á eitt svið. Á menningarsviðið verður bætt rúmlega þrjúhundruð milljónum króna frá því sem áður var, sem ekki var lítið, og að sögn Ríkisútvarpsins er langstærstur hluti hækkunarinnar kominn til vegna Tónlistarhallarinnar, sem enn er hamast við að byggja, eins og ekkert hafi í skorist.

Hvenær ætla menn eiginlega að stöðva þá bilun? Það er enn hægt að hætta við ruglið og spara þannig stórfé. Og ef menn telja sér ranglega trú um, að „úr því sem komið er“ sé alveg eins gott að klára bygginguna, þá gætu menn gert hlé á framkvæmdum. Hvers vegna er ekki beðið í eitt til tvö ár, og í staðinn gætu menn, ef þeir vildu, minnkað eitthvað þann sparnað sem þeim í orði kveðnu þykir svo sársaukafullur annars staðar?

Sjúkrahúsum er í reynd lokað sem slíkum, aðgerðum er frestað, fólki er sagt upp, jafnvel því fólki sem minnsta möguleika hefur á vinnu annars staðar – en á sama tíma þorir enginn að móðga freka liðið sem heimtar tónlistarhöllina sína. Hvað á þetta að ganga lengi?

Einhvern tíma verður gerð úttekt á byggingarsögu tónlistarhallarinnar. Hvað var boðið út og hvenær, og hvaða heimildir höfðu þá verið veittar til skuldbindinga. En eins og þjóðfélagsumræða er á Íslandi þessi misserin, þá mun að sjálfsögðu enginn viðurkenna að Vefþjóðviljinn hafi talað gegn framkvæmdinni. Sennilega má blaðið þakka fyrir ef það verður ekki talið höfuðpaurinn á bak við allt saman.