Þ egar Eva Joly hafði komið nokkrum sinnum til landsins og einhverjir fundu að bæði opinberri framgöngu hennar og kostnaði sem konunni fylgdi, svaraði hún því til í sjónvarpsviðtali, að enginn gæti rekið sig úr starfanum því hún hefði gert „samning við íslensku þjóðina“ um hið mikilvæga starf sitt.
Þetta þótti mörgum alveg geysilega flott hjá henni.
Í vikunni var tilkynnt að Joly hefði ákveðið að hætta störfum, þar sem hún hygðist nú einbeita sér að pólitíkinni í Frakklandi.
En hvernig var með „samninginn“? Var það bara tal þegar Joly vildi vera hérna, en ekki þegar hún vildi fara?
Annars hefur Vefþjóðviljinn ekkert á móti Evu Joly. Líklega hefur embætti sérstaks saksóknara grætt á samstarfinu við hana, og er þá ekki einungis átt við fjárveitingarnar sem komu jafnan eftir sjónvarpsviðtöl við Joly. Hún hefur eflaust getað frætt og brýnt starfsmenn saksóknarans og hjálpað til með samstarf við erlendar stofnanir, þótt óþarfi sé að gleyma því að íslensk lögregluyfirvöld hafa lengi átt í slíku samstarfi.
En eitt tengt störfum Joly hér á landi var nokkuð lýsandi fyrir íslenska umræðu. Fljótlega eftir að Joly kom hingað til starfa höfðu hún, og ekki síður aðstoðarmaður hennar, uppi allstór orð um þá sem væntanlegar rannsóknir myndu beinast að. Einhverjir höfðu þá orð á því, að þar með væri hún búinn að dæma sig úr leik sem ráðgjafi saksóknara, sem ber að gæta hlutleysis. Þá reis upp til andmæla hópur manna og taldi Joly alls ekki vera vanhæfa til frekara starfs, þar sem allt hefði verið satt og rétt í máli hennar.
Sumir virðast halda að spurningin um það, hvort ummæli geri menn vanhæfa, ráðist að einhverju leyti að því hversu sammála menn eru ræðumanni. En þeir sem telja þetta, ættu að velta fyrir sér hvernig þeir brygðust við ef ræðumaður, eða einhver annar, hefði lýst gagnstæðri skoðun. Hvað hefðu menn sagt, ef sérstakur saksóknari hefði fengið sér erlendan ráðgjafa sem hefði lýst því í mörgum viðtölum að hér færu fram nornaveiðar gegn stálheiðarlegum viðskiptasnillingum? Hefðu þeir talið hann geta starfað áfram? Varla hefðu þeir getað sagt mikið, úr því þeir töldu Joly ekki hafa talað sig til neins vanhæfis, af því allt hefði verið satt og rétt hjá henni.
En Joly hafði ekkert opinbert hlutverk og aðstoðarmaður hennar enn síður, og þess vegna voru opinberar yfirlýsingar hennar skaðlitlar. En það, hvort menn voru sammála henni eða ekki, breytir engu um vanhæfið, þótt það hafi verið dæmigert fyrir íslenska gasprara að hugsa fyrst og fremst um það.