Fimmtudagur 14. október 2010

287. tbl. 14. árg.
Við erum á plani við það sem við ætluðum okkur að gera í útgjöldum, í tekjuöflun og reyna að ná tökum á rekstri ríkisins sem var eins ótal skýrslur ríkisendurskoðunar og fleiri benda til algerlega stjórnlaus og agalaus hér árum og áratugum saman. Það er meðal annars ástæðan fyrir því ástandi sem er hér í dag.
– Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar Alþingis í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu 11. október 2010.

E nn hrannast upp sönnunargögn og vitnisburður um frjálshyggjuna í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum og áratugum. Björn Valur Gíslason þingmaður vinstri grænna kynnt sér málin í fjárlaganefnd Alþingis undanfarna 18 mánuði. Niðurstaða hans er sú að rekstur ríkisins hafi verið algerlega stjórnlaus og agalaus undanfarna áratugi. Þingmaður vinstri grænna er gjörsamlega gáttaður á því hve útgjöld ríkisins hafi farið úr böndunum undanfarin ár. Og þetta er ekki bara einhver þingmaður vinstri grænna heldur sá sem var hvað kærast að ríkissjóður Íslands tæki á sig hallann af viðskiptum Landsbankans við erlenda sparifjáreigendur upp á allt að jafnvirði 700 milljarða króna í erlendum gjaldmiðli. Honum er engu að síður brugðið vegna útgjaldasprengingar undanfarinna ára.

Hvað ætli flokksbræðrum hans sem eiga lengri þingsetu að baki þyki um þessa skoðun Björns Vals? Aldrei lögðu þeir til aðhald eða sparnað í rekstri ríkisins heldur þvert á móti. Frá þeim bunuðu útgjaldatillögur og eilíft sífur um „fjársvelti“ ríkisstofnana og „atlögu að velferðarkerfinu“. Undantekningarlaust stilltu þingmenn vinstri flokkanna sér upp með hagsmunahópunum sem herjuðu á ríkissjóð.

Þeir voru jafnframt andvígir öllum skattalækkunum. Alvöru skattalækkanir hefðu getað minnkað skotsilfur stjórnmálamanna.