Helgarsprokið 3. október 2010

276. tbl. 14. árg.

I ngibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var augljóslega mjög misboðið yfir framgöngu Atla Gíslasonar og ákærufélaga hans innan nefndar og utan. Ekki hefur dregið úr reiði hennar að vita auðvitað af framgöngu forystumanna Samfylkingarinnar bak við tjöldin, en Össur Skarphéðinsson beitti sér af þunga til að hindra að bankamálaráðherrann Björgvin Sigurðsson yrði ákærður, en Jóhanna Sigurðardóttir reyndi á hinn bóginn að sannfæra Björgvin um að það yrði einmitt honum sjálfum í hag ef hann sætti ákæru. Bæði létu þau hins vegar ákæru yfir Ingibjörgu Sólrúnu sér í léttu rúmi liggja, og þá eins þótt þau hafi bæði vitað að sjálf höfðu þau verið áhrifamiklir ráðherrar sömu ríkisstjórnar og Jóhanna fundað þar sem upplýsingar um grafalvarlega stöðu bankanna komu fram.

Það var ekki fyrr en þeim skötuhjúum varð ljóst að yrði Ingibjörg Sólrún ákærð þá yrði upplýst með nákvæmum hætti um þætti þeirra tveggja, og að þá yrði öllum ljóst að þau gætu ekki setið áfram í ríkisstjórn, sem þau sneru við blaðinu. Jóhanna Sigurðardóttir, sem á þrjátíu ára þingferli hefur talað samfellt um rannsóknir og ábyrgð, og sem gerði að sínu fyrsta verki í forsætisráðuneytinu að ráðast gegn embættismönnum sem henni var illa við, varð skyndilega mikill áhugamaður um andmælarétt og mannréttindi og snerist gegn Atlanefndinni af sinni hefðbundnu hörku. Skyndilega áttaði forysta Samfylkingarinnar sig á því að hún gat ekki látið undan löngun sinni til að sparka í Ingibjörgu Sólrúnu heldur var henni lífsnauðsyn að Ingibjörg Sólrún slyppi. Þar fékk þingflokkur Sjálfstæðisflokksins auðvitað tækifæri til að hindra ákæru á Geir Haarde, en þingflokknum tókst ekki að nýta sér það.

En Ingibjörgu Sólrúnu var greinilega misboðið, og skyldi engan undra. Ákærudrögin gegn henni voru fráleit, hvað sem segja má um hana og hennar störf að öðru leyti. Og þótt margt af framgöngu Samfylkingarmanna blasi við, þá er auðvitað ljóst að Ingibjörg Sólrún og hennar fólk vita enn meira um geðslegheitin en komið hefur fram opinberlega. Það þarf þannig enginn að ímynda sér að eiginmaður hennar, sem er fjarri því að vera athyglissjúkur æsingamaður, heldur þykir þvert á móti hógvær sómamaður, hafi að gamni sínu eða ástæðulitlu sagt sig úr flokki þeirra og sagt frá því opinberlega.

En þótt Ingibjörg Sólrún hafi ekki falið óbeit sína, eða að minnsta kosti ekki alla óbeit sína, á því sem fram fór á alþingi, þá taka menn auðvitað eftir því að eitt hefur hún alveg falið. Hafi henni á einhvern hátt líkað við framgöngu sinna gömlu pólitísku andstæðinga í Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, þá hefur hún ekki gefið það til kynna á neinn hátt. Og beittu þeir sér þó ekki hvað síst í þágu hennar málstaðar í málinu. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart. Ingibjörg Sólrún hefur alla tíð beitt sér af mikilli hörku gegn Sjálfstæðisflokknum og flestum forystumönnum hans eins og menn muna. Það þarf ekki að koma á óvart að jafnvel nú, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hún hefur hatast við árum saman, skar hana ótilneyddur úr ákærusnöru félaga hennar, þá nefni hún ekki einu orði að eitthvað geti verið jákvætt við framgöngu þessa flokks.

Og Sjálfstæðisflokkurinn á svo sem enga kröfu um hrós fyrir það, þannig lagað. Ingibjörg Sólrún átti ekki að sæta ákæru samkvæmt ákærudrögum Atla Gíslasonar og félaga. Alþingi átti að hafna þeirri tillögu, rétt eins og það átti að hafna tillögunni um ákæru á hendur Geir Haarde. Áhugamenn um eðli flokka og stjórnmálamanna mættu hins vegar velta fyrir sér hvernig farið hefði ef hlutum hefði verið snúið við. Ef að Sjálfstæðisflokkurinn hefði beitt afli sínu til að ákæra fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, hvaða líkur telja menn þá á því að Samfylkingin hefði hlíft fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins?

En þótt margt hafi mátt að stjórnmálamanninum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur finna, þá var henni ekki alls varnað. Hún má eiga það, að líklega ein stjórnmálamanna hafði hún bæði skynsemi og hugrekki til að segja múgæsingamönnum á uppþotstíma það augljósa, að þeir hefðu ekkert umboð til að tala fyrir íslensku þjóðina. Þessi augljósu sannindi hittu æsingamenn svo illa fyrir, að margir þeirra missa nær stjórn á sér þegar Ingibjörg Sólrún kemur til tals. Sumir þeirra munu hafa talið þetta réttlæta ákæru á hendur henni.

Á uppþotstímanum veturinn 2008 til 2009, þegar skipulega var grafið undan stjórnvöldum og ríkisfjölmiðlarnir beittu sér af fullum þunga við að kynna málstað uppþotsmanna en afflytja annan málstað, skiptust flestir stjórnmálamenn í annars vegar þá sem létu sér vel líka og kyntu undir, og svo þá sem reyndu að skríða í skjól. Auðvitað var framganga Ingibjargar Sólrúnar þessa mánuði fjarri því að vera nein fyrirmynd, og nægir þar að minnast sífelldrar kröfugerðar hennar á hendur „vini“ hennar sem hún kallar nú, Geir Haarde. En hún, hvort sem var í augnabliks aðgæsluleysi eða af hugsun, sagði þó þarna það sem fleiri hefðu mátt segja: Þátttakendur á útifundum og borgarafundum tala ekki í nafni þjóðarinnar. Hver og einn þeirra talar í eigin nafni, en ekki annarra. Íslenska þjóðin efndi ekki til óspekta og uppþota.

Og þeir sem finna að þetta var satt, þeir geta ekki fyrirgefið henni.