Laugardagur 2. október 2010

275. tbl. 14. árg.

Í gær birti Vefþjóðviljinn mynd af merki sem nælt var í Atla Gíslason, formann ákærunefndar Alþingis, til virðingar fyrir vel unnin störf. Ekki fer milli mála hvert fyrirmynd merkisins er sótt, en tilvísunin til hamarsins og sigðarinnar, kommúnistamerkisins sem blakti yfir mestu kúgunarbúðum mannkynssögunar, er augljós. Í „mótmælum“ þeim sem efnt er til á Íslandi sjást æ oftar skilti og fánar sem vísa í þá skelfilegu átt, þótt flestir virðist yppta öxlum yfir því eins og flestum öðrum alvörumálum.

Svo óskaplega er búið að rugla fólk í ríminu undanfarin misseri, með skefjalausum áróðri, ofstopa og fullyrðingum út í loftið, að fjölmargir virðast ekki sjá neitt athugavert við að vera í mannfjölda sem ber slik merki í fullri alvöru. Sjálfsagt myndu einhverjir gera athugasemdir ef skiltin og fánarnir vísuðu til hakakross en ekki hamars, sigðar og stjörnu, en slík er firringin orðin að sumir sjá ekki að þau merki eru ekkert verri en hin.

Á hverjum degi er rugli hellt yfir landsmenn, og ekki aðeins á netinu heldur jafnvel í umræðuþáttum útvarps og sjónvarps. Á netinu hvetja menn átölulaust til byltinga og læra það af „viðbrögðum“ lögreglu, að ekkert sé athugavert, við að mölva rúður í dómkirkjunni og grýta biskup, forseta, þingmenn og ráðherra.

Það eru ekki bara grímubúnir óðir menn sem bera merki kommúnismans að alþingishúsinu. Þegar byrjað var að auka ólgu í þjóðfélaginu og hóta óeirðum fannst Hinu íslenska bókmenntafélagi rétti tíminn til að gefa Kommúnistaávarpið út sem sérstakt lærdómsrit. Sennilega er bókmenntafélagið jafn ánægt með það, og að hafa þegið tugmilljónir króna í styrki af helstu útrásarfyrirtækjunum þegar veldi þeirra var sem mest.