Þriðjudagur 31. ágúst 2010

243. tbl. 14. árg.

Þ rátt fyrir að Obama forseti hafi efnt til gríðarlegra útgjalda undanfarin misseri til að örva efnahagslíf Bandaríkjanna er atvinnuleysi enn 9,5%. Það þætti ef til vill ekki tiltökumál í Evrópusambandinu en veldur forsetanum áhyggjum þótt ekki væri nema vegna þingkosninganna í byrjun nóvember. Hann hyggur því á meira af því sama.

En hvaða áhrif hafa útgjöld og aðrar sértækar aðgerðir til að örva efnahagslífið til lengri tíma litið? Samdrátturinn undanfarin tvö ár er vegna ýmiss konar sértækra aðgerða hins opinbera á árunum þar á undan. Vextir voru lækkaðir til að koma í veg fyrir samdrátt eftir 2001 og gerð var meiriháttar tilraun til að lána fólki fé til húsnæðiskaupa sem átti litla möguleika á að endurgreiða það þegar vextir yrðu betur tengdir raunveruleikanum. Bæði fólk og fyrirtæki gerðu áætlanir sem byggðu á fölskum forsendum hinna niðursettu vaxta stærstu seðlabanka heimsins. Fjármálakerfi Vesturlanda riðaði til falls við höggið frá þessum kerfisbundnu mistökum í efnahagslífinu.

Kreppan undanfarið er annað nafn yfir nauðsynlegt hreinsunarstarf. Markaðurinn er að sópa burtu óarðbærum fyrirtækjum. Það er einn mikilvægasti þáttur markaðarins að vonlaus fyrirtæki hverfi. Án afskipta hins opinbera myndi þetta jafnan gerast jafnt og þétt.

En því miður fær markaðurinn sjaldnast að vinna þetta hreinsunarstarf sitt í friði. Það er alltaf skammt í kosningar. Stjórnmálamenn vilja tryggja sér endurkjör og grípa því til örvandi aðgerða á ný. Þeir halda lífi í óarðbærum fyrirtækjum með ríkisstyrkjum og efna til nýrra átaksverkefna. Enginn þeirra leggur í kosningar án þess að geta bent á örvandi aðgerðir. Enginn vill segja almenningi þær fréttir að til þess að rjúfa vítahring hagbólu og kreppu þurfi menn að bíða þess að hreinsunarstarfinu ljúki svo fyrirtæki geti á ný starfað á eðlilegum forsendum.